Kæra samstarfsfólk!
Í byrjun desember ætlum við að hrista aðeins upp í hlutunum og halda níu snarpa starfsmannafundi á öllum stærstu starfsstöðvum Landspítala. Á fundunum ætla ég að kynna nýlegar breytingar á skipuriti, skipulagi og stjórnendum spítalans og greina frá fjölbreyttum hagræðingaraðgerðum til að bæta fjárhagsstöðu okkar. Að endingu hyggst ég fjalla stuttlega um hina skýru framtíðarsýn og stefnu Landspítala og svara að endingu spurningum. Fundirnir eru opnir öllu starfsfólki eins og húsrými og verkefnastaða hvers og eins leyfir. Alla vega einn fundurinn verður í beinni útsendingu á vefsvæði og samfélagsmiðlum spítalans. Upptakan verður sömuleiðis aðgengileg að fundi loknum. Það er von mín að þið náið sem flest að mæta og verðið í kjölfarið nokkru nær um stjórnun og stefnumótun Landspítala.
Nýir stjórnendur
Núna í vikunni tilkynntum við um ráðningu 11 nýrra forstöðumanna hér á Landspítala. Fjöldi umsókna barst um þessi spennandi störf og það var áskorun að vinna úr þeim. Forstöðumennirnir hefja störf ýmist nú 1. desember eða 1. janúar 2020 og við bindum miklar vonir við störf þeirra. Forstöðumönnum er ætlað að samhæfa flókin verkefni í framlínu spítalans; þjónustu við sjúklinga, vísindi og menntun. Hér er um umfangsmikil stjórnunarstörf að ræða og þau munu styrkja samhæfingu, samstarf og heildaryfirsýn innan spítalans. Framundan er spennandi tímabil breytinga og þróunar og ég finn að það er hugur í mannskapnum. Reynslan af nýrri framkvæmdastjórn nú frá októberbyrjun er sömuleiðis mjög góð og takturinn í helmingi minni framkvæmdastjórn er allur kvikari og skilvirkari en áður.
Umbætur í lyfjaferli
Í vikunni heimsótti ég lungnadeild A6 í Fossvogi og kynnti mér vinnu sem þar hefur farið fram við að bæta lyfjaferli. Lyfjatiltekt og lyfjagjöf á A6 fer nú fram við rúm sjúklings að mestu, armband viðkomandi er skannað og parað við Therapy-upplýsingakerfi okkar auk þess sem lyfjatæknar skammta í skúffur tvisvar í viku. Verklaginu var breytt í kjölfar RPIW-vinnustofu fyrir örar umbætur í lok september og hefur gefist vel. Næstu skref munu vera þau að fá fleiri lyfjavagna, fullprófa verkferlið og aðlaga lyfjaherbergi fyrir lyfjavagnana. Árangur þessara umbóta er nú þegar mælanlegur og ljóst að aðrar deildir munu njóta góðs af þeirri reynslu sem þarna er að myndast. Ég læt fljóta með mynd af Guðrúnu Árnýju Guðmundsdóttur deildarstjóra, við hlið lyfjavagns, í gulu vesti sem táknar að verið er að gefa lyf og ekki má trufla viðkomandi.
Betri samskipti
Það er ástæða til að minnast í örfáum orðum á samskiptasáttmálann, sem við þróuðum í fyrra og höfum verið að innleiða á hinum 200 deildum Landspítala allt þetta ár. Tilgangur sáttmálans er annars vegar að auka öryggi sjúklinga og hins vegar að bæta líðan starfsfólks. Þetta gerum við með skýrum, skilvirkum, hlýjum og jákvæðum samskiptum og við leggjum áherslu á að sáttmálinn nær til allra sem starfa á spítalanum, burtséð frá stöðu og starfsstétt. Sáttmálinn var unninn á fimmtíu þróunarfundum starfsfólks og lýtur bæði að því sem vel er gert og því sem betur má fara í samskiptum á spítalanum hvað snertir faglegar boðleiðir, samskipti og hegðun. Við höfum framleitt mikið af stoðefni fyrir sáttmálann og miðlað innihaldi hans vítt og breitt. Þar má nefna vefsvæði, hlaðvörp, veggspjöld, bæklinga, grafík, texta, myndir, myndskeið, leikþætti, teikningar, viðtöl og fréttir á bæði texta- og myndskeiðformi. Þessi yfirgripsmikla miðlun á innihaldi samskiptsáttmálans hefur skipt lykilmáli við innleiðingu hans og fengið góðar viðtökur.
Jákvæðni og traust
Landspítali nýtur ótrúlegs velvilja í samfélaginu og starfsfólk finnur fyrir þeirri hlýju í öllum samskiptum við sjúklinga, aðstandendur og almenning, þegar svo ber undir. Við leggjum okkur fram á spítalanum um að vinna saman og skapa andrúmsloft þar sem sjúklingar finna til öryggis og gæða okkar þjónustu, sem er að öllu jöfnu á pari við það besta sem þekkist á alþjóðavísu. Nýlegar kannanir meðal almennings sýna að viðfangsefni okkar í umbótastarfi, upplýsingamiðlun og öryggisvegferð eru að bera talsverðan árangur. Landspítali rýkur þannig upp um hartnær 10% milli ára í afstöðu fólks til okkar hvað snertir jákvæðni, þekkingu og traust. Því ber að fagna.
Góða helgi!
Páll Matthíasson