Kæra samstarfsfólk!
Ég vona að það sem af er hátíðum hafi reynst ykkur notalegur tími, hvort heldur þið náðuð frídögum eða stóðuð vaktina hjá okkur og að hið sama gildi um næstu daga.
Nú er daginn aftur tekið að lengja og ef ykkur er svipað farið og mér þá markar það alltaf tímamót, líkt og áramótin sjálf sem framundan eru. Árið 2019 var ekki ár lognmollu fremur en nokkur önnur í sögu Landspítala. Við hófum undirbúning umfangsmikilla skipulagsbreytinga snemma á árinu og í samvinnu við fjölmarga var nýtt skipurit kynnt síðsumars. Helstu tíðindin voru meginbreyting á hinum 7 klínísku sviðum sem og rekstrarsviði. Í stað þessara átta sviða eru svið spítalans nú þrjú. Samhliða fækkaði verulega í framkvæmdastjórn, þar sitja nú 3 klínískir framkvæmdastjórar ásamt framkvæmdastjórum hjúkrunar, lækninga, mannauðs og fjármála. Með þessu móti náum við stefnumiðaðri stjórnun spítalans á sama tíma og nýir forstöðumenn í framlínu taka við stjórnun ellefu þjónustukjarna sem verða burðarvirki spítalans. Segja má að þessi önnur bylgja breytinga hjá okkur hefjist nú fyrir alvöru þann 1. janúar þegar allir forstöðumennirnir hafa tekið til starfa.
Framundan eru vissulega flóknir en spennandi tímar þar sem við tökumst á við snúna fjárhagslega stöðu í nýju skipuriti. Nú sem aldrei fyrr ríður á að muna að það er sjúklingurinn sem er í öndvegi. Þrátt fyrir að reglulega gefi á bátinn hjá okkur er engin ástæða til annars en að horfa björtum augum til framtíðar Landspítala. Við höfum, eftir áralanga þrotlausa baráttu, loksins séð upphaf frakvæmda við Landspítalaþorpið við Hringbraut. Sjúkrahótelið, fyrsti hluti þeirrar ánægjulegu uppbyggingar, er nú tekið til starfa og hefur þegar haft afgerandi áhrif á starfsemina hjá okkur og fyllir okkur bjartsýni. Þolinmæði starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda í þessu mikla raski hefur verið ótrúleg og ég vil þakka ykkur sérstaklega fyrir skilning og umburðarlyndi í þessum miklu framkvæmdum.
Árið hefur verið okkur ánægjulegt að mörgu leyti. Sérstaklega er ástæða til að fagna öflugu framfarastarfi á ýmsum sviðum og má þar m.a. nefna þjónustu við fólk sem fengið hefur heilaáföll og ánægjulega þróun í þjónustu við nýrnaþega. Við höfum haldið áfram öflugu gæðastarfi og það er ánægjulegt að greina frá því að alvarlegum atvikum hefur fækkað hjá okkur. Þetta, ásamt svo ótal mörgu, ber vönduðu og framsýnu starfsfólki Landspítala öflugt vitni.
Landsmenn eru sannarlega heppnir að á Landspítala starfar þessi ótrúlegi floti starfsfólks á heimsmælikvarða.
Megið þið eiga farsælt komandi ár!
Páll Matthíasson