Stuðnings- og ráðgjafarteymi langveikra barna með sjaldgæfa sjúkdóma tekur nú á móti fyrirspurnum og/eða umsóknum um þjónustu. Teymið tók til starfa undir lok árs 2019 en til þess var stofnað með fjárveitingu frá heilbrigðisráðuneytiinu til að hlúa betur að þessum börnum og fjölskyldum þeirra.
Starfsmenn stuðnings- og ráðgjafarteymis langveikra barna með sjaldgæfa sjúkdóma eru þær Eygló Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Helga Jónasdóttir þroskaþjálfi, Sigurlaug H.S. Traustadóttir félagsráðgjafi og Valgerður Hjartardóttir fjölskyldufræðingur.
Frá því í september 2019 hefur teymið unnið að uppbyggingu þjónustunnar þar sem þarfir þessa hóps geta verið flóknar og miklar og þörf á góðum undirbúningi, skýrum verkferlum og stöðugu endurmati.
Foreldrar/umönnunaraðilar geta sent inn fyrirspurn til teymisins í tölvupósti á netfangið studningur@landspitali.is.
Fagfólk á Barnaspítala Hringsins getur sent inn beiðni um þjónustu teymis. Öllum fyrirspurnum og beiðnum verður svarað.
Nánari upplýsingar um þjónustu teymisins á vefsíðu þess.