Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85, í kjölfar úttektar sem framkvæmd var af Versa vottun ehf. Niðurstöður sýna í heildina óverulegan kynbundinn launamun á Landspítala. Yfir 800 starfsmenn Landspítala tóku þátt í starfsmatinu sem jafnlaunavottunin byggir á og nær það til meira en 200 starfsheita á 194 starfseiningum Landspítala.
Jafnlaunakerfi Landspítala hefur verið byggt upp með markvissri innri vinnu frá árinu 2018 þegar stýrihópur hóf sína vinnu og verkefnastjóri jafnlaunavottunar Landspítala, Lúvísa Sigurðardóttir, tók til starfa.
Jafnlaunakerfið byggir í grunninn á reglubundnum úttektum ásamt flokkun starfa samkvæmt verðmæti. Verðmætamat starfa á Landspítala var unnið út frá kerfi sem byggir á starfsmatskerfi breska heilbrigðiskerfisins, NHS, og hefur verið aðlagað íslenskum aðstæðum. Yfir 800 starfsmenn Landspítala tóku þátt í að meta sín störf á árinu 2019 en starfsmatið nær til meira en 200 starfsheita sem dreifast á 194 starfseiningar á Landspítala.
Gerðar hafa verið tvær jafnlaunaúttektir á tímabilinu, sú fyrri með aðstoð Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands en sú síðari með greiningartólinu Pay Analytics. Niðurstöður sýna í heildina óverulegan kynbundinn launamun á Landspítala þegar starfsmatsniðurstöður, hóp- og persónubundnir þættir eru teknir til greina.
Úttektarferli Landspítala hófst á haustmánuðum með forúttekt af hálfu vottunarstofunnar Versa vottunar ehf. en stofan er einn af fjórum vottunaraðilum með leyfi Jafnréttisstofu til að framkvæma jafnlaunaúttektir. Vottunarúttektin fór fram dagana 6.-9. janúar 2020.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði við afhendingu vottorðs Versa vottunar: "Við erum mjög stolt af því að hafa hlotið jafnlaunavottun, enda erum við flókin stofnun með um 6.000 starfsmenn. Um leið gerum við okkur grein fyrir að jafnlaunaverkefninu lýkur ekki þar, heldur höfum við gengist inn á að fylgja staðli sem kveður á um stöðugar umbætur á jafnlaunakerfinu. Okkar markmið með jafnlaunastefnunni er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsfólks til fulls án þess að kynbundin mismunun eigi sér stað. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu starfsmönnum Landspítala sem lögðu sitt af mörkum til að ná þessum áfanga."
Ljósmynd: Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála, Gná Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Versa vottunar, Páll Matthíasson forstjóri og Birna Dís Eiðsdóttir vottunarstjóri hjá Versa vottun.