Mats- og hæfisnefnd hefur viðurkennt öldrunarlækningadeild Landspítala sem sérnámsdeild í öldrunarlækningum.
Í reglugerð nr 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði þess að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi er kveðið á um í fyrsta skipti á Íslandi að heimilt sé að bjóða upp á tveggja ára sérnám í öldrunarlækningum sem undirsérgrein við almennar lyflækningar og sem viðbótarsérgrein við heimilislækningar. Starfshópur var myndaður með sérfræðingum öldrunarlækningadeildar Landspítala og slíkt sérnám útfært í marklýsingu, sem tók mið af sérnámi víða um heim, m.a. Bretlandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Ástralíu.
Eldra fólki fer mjög fjölgandi og því er talið mikilvægt að bjóða upp á sérhæfða menntun og þjálfun innan sérnáms lækna til að sinna þessum stækkandi hópi. Verkefni öldrunarlækninga eru fjölmörg, allt frá frumgreiningum á heilkennum ellinnar upp í heildrænt öldrunarmat með lyfjaendurskoðun og flókna endurhæfingu.
Öldrunarþjónusta Landspítala er stór á alþjóðlegan mælikvarða og því vel í stakk búinn að veita framhaldsnám í greininni og mikill metnaður sé fyrir því að sérnámslæknar fái bestu mögulega menntun í öldrunarlækningum.
Mynd: Anna Björg Jónsdóttir yfirlæknir og kennslustjóri öldrunarlækninga, Reynir Tómas Geirsson, formaður mats- og hæfisnefndar, og Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir og prófessor í öldrunarlækningum, við undirritun viðurkenningarinnar.