Kæra samstarfsfólk!
Landspítali tekur nú þátt í gríðarlegu viðbragði vegna Covid-19 veirunnar. Búast má við miklum áhrifum á starfsemi Landspítala og eru þau raunar nú þegar farin að koma fram, þar sem dæmi eru um að samstarfsfólk okkar sé bæði í sóttkví og einangrun vegna staðfests smits. Starfsmenn Landspítala eru sérfræðingar í veitingu viðkvæmrar heilbrigðisþjónustu og úr þeirri keðju megum við engan missa á óvissutímum sem þessum. Við höfum því ákveðið að náms- og ráðstefnuferðum verði aflýst og landlæknir hefur hvatt starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar til að fresta ferðalögum Þá hvatti spítalinn í gær samningsaðila eindregið til að ganga nú þegar til samninga svo koma megi í veg fyrir boðuð verkföll nú eftir helgina. Ég ritaði fyrr í dag undanþágunefnd ósk um allsherjarundanþágu frá áhrifum verkfallsins vegna þeirrar fordæmalausu stöðu sem yfirvofandi er. Mér er ljóst að félagsmenn í Sameyki og Sjúkraliðafélgi Íslands gátu ekki séð fyrir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin þegar til verkfalla var boðað. Félögin óskuðu þegar eftir fundi um málið og geri ég ráð fyrir að niðurstöðu um málið fljótt.
Fjöldi starfsmanna á Landspítala hefur tekið þátt í viðbragði stjórnvalda á ýmsum vettvangi; í samhæfingarmiðstöð Almannavarna og við undirbúning opnunar farsóttarhúss, á sýkla- og veirufræðideild spítalans og miklu víðar. Þá hefur mikil vinna verið unnin af hálfu farsóttarnefndar Landspítala þar sem nótt er lögð við dag til unnt sé að mæta ástandinu með sem allra öruggustum hætti. Sérstaklega mikið munar okkur um þau áhrif sem opnun hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg hefur á starfsemina hjá okkur og skjót og fagleg viðbrögð Hrafnistu við móttöku fólks á heimilið. Eftir þetta inngrip er staðan sú í dag að engir sjúklingar bíða á gögnum bráðamóttökunnar og örfáir bíða innlagnar. Þessi áhrif ættu ekki að koma neinum á óvart enda hefur margítrekað verið bent á að áhrifamesta aðgerðin til að bæta þá stöðu sem birtist landsmönnum undanfarið á bráðamóttökunni er að sjá til þess að einstaklingar sem tilbúnir eru til útskriftar af Landspítala og á hjúkrunarheimili komist þangað án tafar. Þannig komast þeir einstaklingar sem þurfa innlögn á sérhæfðar legudeildir spítalans og spítalinn getur sinnt sínu kjarnahlutverki, sem er að sinna veikustu sjúklingunum í landinu.
Ég hef undanfarið verið á ferð víða um spítalann og heimsótt deildir, s.k. GEMBA. Nú í vikunni fór ég í heimsókn á meðgönguvernd, fósturgreiningu og bráðaþjónustu kvennadeilda. Þar hitti ég Ingibjörgu Th. Hreiðarsdóttur yfirljósmóður, Huldu Hjartardóttur yfirlækni, Erlu Björk Sigurðardóttur aðstoðaryfirljósmóður og fjölda starfsfólks. Mjög lærdómsríkt var að heyra af rúmlega fjögurra ára umbótavegferð deildarinnar. Þar bar hæst áhersla þeirra á samskiptasáttmála, mikilvægi þess að aðskilja bráðaflæði og valflæði sjúklinga, skipulag starfseminnar með hag sjúklinga að leiðarljósi og sem besta nýtingu margvíslegrar sérþekkingar starfsfólks.Gott var að heyra hvað sjúkraliði sem ráðinn var á deildina hefur skipt miklu við að gera starfið skilvirkara.
Í síðustu viku heimsótti ég nýja sameinaða krabbameins- og blóðmeinadeild 11 EG og hitti þar fyrir deildarstjórann, Kristjönu G. Guðbergsdóttur, og Agnesi Smáradóttur og Signý Völu Sveinsdóttur yfirlækna. Nýlega voru deildir 11E og 11G sameinaðar og umbreytingaferli stendur þar yfir. Deildin er lykildeild á landsvísu og framundan eru áskoranir og tækifæri við að veita áfram framúrskarandi þjónustu við viðkvæman sjúklingahóp.
Kæra samstarfsfólk, framundan er mikið álag á starfsemina hjá okkur. Við erum vel undirbúin og þétt samstarf mun skila árangri!
Páll Matthíasson