Landspítali hefur fengið 17 nýjar gjörgæsluöndunarvélar að gjöf. Það eru fjórtán fyrirtæki í íslensku atvinnulífi sem hafa tekið höndum saman um að fjármagna og útvega tækin. Með þessu vilja fyrirtækin leggja sitt af mörkum til að styðja við íslenskt heilbrigðiskerfi á erfiðum tímum. Fyrirtækin sem standa að gjöfinni kjósa að láta nafns síns ekki getið. Fyrirtækin þakka fjármálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og sendiráði Kína á Íslandi sérstaklega fyrir veitta aðstoð.
Til viðbótar við öndunarvélarnar gefa fyrirtækin Landspítala sérstakan hlífðarfatnað og ýmsar lækningavörur fyrir starfsfólk í framlínu heilbrigðiskerfisins. Um er að ræða 6.500 svokallaðar N95 sóttvarnargrímur, 1.000 varnargalla, 2.500 varnargleraugu og 140.000 veirupinna. Undanfarið hefur gengið erfiðlega að panta nægilegt magn pinna til landsins vegna umframeftirspurnar eftir þeim á heimsvísu. Þetta mikla magn pinna er talið duga heilbrigðiskerfinu um fyrirséða framtíð.
Ellefu af öndunarvélunum fyrir gjörgæslu og lækningavörurnar hafa þegar verið afhentar Landspítala en sex öndunarvélar verða afhentar í næstu viku. Spítalinn er birgir fyrir sjúkrahúsin á landsbyggðinni og því nýtist gjöfin öllu landinu. Fjöldi öndunarvélanna sem fyrirtækin útvega og gefa var ákveðinn í samráði við Landspítala og byggist á sviðsmyndum um ítrustu þarfir gjörgæslunnar.
Sigurbergur Kárason, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut:
„Öndunarvélar eru af skornum skammti í heiminum og eftirspurn langt umfram framboð. Þessi gerð öndunarvéla uppfyllir allar kröfur um meðferð gjörgæslusjúklinga. Vélarnar munu nýtast okkur vel til meðhöndlunar einstaklinga með alvarlega öndunarbilun af völdum COVID-19 sjúkdómsins.“
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala:
„Þessi höfðinglega gjöf er einkar vel tímasett þar sem hún fleytir okkur yfir erfiðan hjalla á meðan beðið er eftir frekari birgðum af lækningavörum. Við viljum auðvitað vera vel undirbúin en þessar öndunarvélar gætu skipt sköpum ef álagið á gjörgæslu eykst mikið. Þá er hlífðarfatnaðurinn nauðsynlegur fyrir heilbrigðisstarfsmenn í framlínu og veirupinnarnir tryggja að við getum sett aukinn kraft í að skima fyrir veirunni án þess að óttast skort.“