Kæra samstarfsfólk!
Undanfarnar vikur hafa verið ótrúlegar hér á Landspítala. Á örfáum dögum var starfseminni breytt til að mæta þeirri ógn sem samfélaginu öllu stendur af Covid-19 faraldrinum. Hjá okkur hefur maður gengið undir manns hönd til að láta starfsemina mæta þessum þörfum á sama tíma og við höfum áfram sinnt öðrum mikilvægum hlutverkum sem við höfum fyrir þjóðaröryggi Íslendinga.
Ég hef margsinnis fyllst stolti og gleði yfir þeirri snerpu, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi sem starfsfólk spítalans hefur sýnt á þessum krefjandi tímum. Við erum sannarlega þjóðarsjúkrahús. Nú virðist sem faraldurinn hafi náð hámarki og sömuleiðis er álag á starfsemina hjá okkur vegna faraldursins á réttri leið – niðurleið.
Viðbragðsstjórn Landspítala og farsóttanefnd hefur fundað daglega allan faraldurinn og stýrt aðgerðum. Svo verður áfram um sinn enda þarf að huga vandlega að afléttingu takmarkana sem settar hafa verið og hvernig við hefjum reglulega starfsemi aftur. Það er tímabært að hefja undirbúning að slíku en afar áríðandi er að við höfum öll í huga að fátt eða ekkert breytist fyrir 4. maí og að áfram verða síðan í gildi umtalsverðar takmarkanir, fram eftir ári.
Það er áríðandi að við á Landspítala sýnum sérstakt fordæmi í þessa veru og virðum allar takmarkanir eins lengi og þær standa, hvort sem þær eru innan spítalans eða utan – hér eftir sem hingað til.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Covid-19 á Landspítala - tölulegar upplýsingar frá degi til dags