Mikla athygli hefur vakið að Boeing 767-300 þota Icelandair teiknaði hjarta yfir Landspítala og höfuðborgarsvæðinu fyrir aðflug sitt að Keflavíkurflugvelli undir kvöld 19. apríl 2020. Með þessu vildi Icelandair sýna heilbrigðisstarfsfólki sem hefur staðið í ströngu í Covid-19 faraldrinum þakklætisvott.
Áður höfðu tvær Icelandair flugvélar sótt lækninga- og sjúkravörur til Kína í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Þriðja flugið fór frá Íslandi að morgni laugardags 18. apríl og lenti sú flugvél á Keflavíkurflugvelli svo daginn eftir, upp úr kvöldmatarleyti sunnudagskvöldið 19. apríl, með rúmlega 18 tonn af varningi sem sóttur var til Shanghaí í Kína. Í þessari þriðju Kínaferð voru 12 í áhöfninni; 6 flugmenn og auk þeirra 2 flugvirkjar og 4 hlaðmenn og yfirmenn hlaðdeildar. Allt í allt tók ferðin tæpar 36 klukkustundir.
Lagt var af stað til Kína laugardagsmorguninn 18 apríl og flogið þangað beint. Í Shanghaí var varningnum hlaðið inn í vélina á nokkrum klukkustundum og þá lögðust allir á eitt úr áhöfninni og tóku til við að hlaðaþví kínversku flugvallarstarfsmennirnir mega ekki koma um borð. Þeir Guðmundur Kristinn Erlendsson flugstjóri, Pétur Guðmundsson flugstjóri og Kristinn Arnar Svavarsson flugmaður flugu svo vélinni heim frá Kína.
Guðmundur Kristinn Erlendsson var flugstjórinn á fluginu tilbaka frá Shanghaí til Keflavíkur og átti hann hugmyndina að því að teikna hjartað yfir Landspítala Fossvogi. Það var á fimmtudaginn sem Guðmundur Kristinn vissi að hans beið að fara á laugardagsmorgni og sækja búnaðinn til Kína. Hann fékk þá hugmynd á fimmtudagskvöldi að senda heilbrigðisstarfsfólki á Landspítala „hjartanlega“ þakklætiskveðju fyrir störf þess á tímum kórónuveiru. Sem yrði hægt að sjá á Flightradar24 vefnum og fólk gæti líka fylgst með flugvélinni fyrir ofan við höfuðborgina í „hjartagerðinni“.
Það er ekki alls kostar einfalt að gera svona nokkuð. Guðmundur Kristinn hafði samband við flugdeild Icelandair um hádegi á föstudaginn og þar leist mannskapnum það vel á hugmyndina að tveimur klukkustundum síðar eða um tvöleytið voru hann og Kristinn Arnar Svavarsson flugmaður mættir í flugherminn í Hafnarfirði til að búa til ferilinn og athuga hvort þetta væri gerlegt. Þar var hjartaflugið síðan prófað við ýmsar aðstæður og lagt á ráðin um hvernig best væri að standa að því.
Þegar til kom reyndust veðurskilyrði vera nokkuð ólík því sem lagt var upp með í æfingum í flughermi. Stíf suðaustanátt með háloftavindi upp á 25 metra á sekúndu í þeirra flughæð sem þeir voru í og ekki var núna hægt að sjá niður á jörð né heldur hægt að sjá flugvélina frá jörðu. Þess vegna varð að reiða sig alfarið á þá punkta sem ákveðnir höfðu verið í flugherminum. Og til þess að hjartað myndi ekki aflagast og verða stærra vinstra megin en hægra megin þurfti að breyta flughraða vélarinnar nokkrum sinnum. Hægt var á vélinni þegar meðvindur var og hraðað þegar mótvindur var. Því hafa væntanlega margir íbúar á Seltjarnarnesi og Reykjavík heyrt þessar skemmtilegu aflbreytingar í hreyflum vélarinnar þegar flogið var gegn vindi. En þotuna hafa sjálfsagt fáir eða engir séð vegna þess hversu lágskýjað var og flogið var í 2.500 fetum.
Þrátt fyrir óhagstætt veður tókst með miklum glæsibragð að búa til hjartað, eins og Flightradar24 myndin vitnar um. Miðað hafði alltaf verið við að Landspítali Fossvogi og Covid-19 göngudeildin þar væri í miðju hjartanu og tekinn yrði þá einnig hringur um spítalann í Fossvogi.
Starfsfólk Landspítala er afar þakklátt fyrir þessa kveðju sem Icelandair sendi með þessum hætti og á daglegum upplýsingafundi sóttvarnalæknis og landlæknis 20. apríl gerði Páll Matthíasson „hjartaflugið“ að umtalsefni og þakkaði fyrir kveðjuna.
Smella á myndina til að stækka.