Kæra samstarfsfólk!
Í dag greindist enginn með Covid-19 á landinu og það eru sannarlega ánægjuleg tímamót. Orrustan er þó ekki unnin, hvað þá stríðið og við þurfum öll áfram að vera á varðbergi og fylgja þeim leiðbeiningum sem settar eru um smitvarnir innan og utan spítala. Við höfum þó hafið ákveðnar tilslakanir vegna heimsóknarbanns á Grensás en áfram er um algert heimsóknarbann að ræða á spítalanum að öðru leyti, nema í undantekningartilvikum og þá einungis fyrir aðstandendur sjúklinga í sérstakri stöðu. Að gefnu tilefni vil ég árétta að þessar takmarkanir eiga að sjálfsögðu einnig við um alla fjölmiðla. Viðbragsstjórn og farsóttanefnd spítalans stýra áfram aðgerðum og gerir ekki ráð fyrir breytingum á þessum viðmiðum fyrr en eftir miðjan maí. Hér má finna þær ákvarðanir sem liggja fyrir. Þetta hefur gengið vel hjá okkur og það er afar áríðandi að við höldum þessum góða árangri og það gerum við með því að halda áfram að hlíta reglum og vera á varðbergi.
Lífið á Landspítala mun þó smá saman færast að einhverju marki í fyrra horf. Við fækkum nú einingum sem taka við Covid-19 sjúklingum og deildir opnast aftur fyrir öðrum sjúklingahópum. Við munum einnig hefja ýmsar ífarandi aðgerðir og rannsóknir eftir því sem líður á vorið. Við förum þó varlega og viljum geta verið fljót að stíga skref til baka, gerist þess þörf. En við viljum líka nota tækifærið og læra af því hvernig til hefur tekist og hvernig heimfæra má það upp á spítala í kjölfar Covid.
Eins og ég nefndi í síðasta pistli þá hefur útsjónarsemi ykkar og hugmyndaauðgi í úrlausn flókinna verkefna vakið aðdáun mína og auðvitað fjölda annarra og ég fæ ekki betur séð en að þarna höfum við náð að bæta mörgum verkfærum í verkfærakistuna. Það er mikilvægt, sér í lagi þar sem framundan eru erfiðir tímar í samfélaginu og þjónusta okkar þarf að endurspegla þörfina.
Mér hefur í gegnum tíðina verið tíðrætt um þann hlýhug sem Landspítali finnur að jafnaði fyrir frá landsmönnum. Til okkar hafa í gegnum tíðina streymt gjafir, stórar og smáar eins og þið þekkið. Í þessum faraldri má segja að ekki hefur farið milli mála að hjörtu landsmanna slá með Landspítala. Okkur hefur borist gríðarlegt magn gjafa af öllum stærðum og gerðum – stórar sem smáar peningagjafir, matarkyns glaðningur til starfsfólks í framlínu, vandaður hlífðarbúnaður, lyf, öndunarvélar og margt fleira. Við höfum einnig verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga hauka í horni um allan heim sem hjálpað hafa til við flókna flutninga gagna til okkar og þar má sem dæmi nefna kínversk stjórnvöld sem kórónuðu þá aðstoð með myndarlegri gjöf nú í vikunni.
Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag og þið eruð auðvitað bestu ferðafélagarnir, útsjónarsöm og snögg að aðlagast breyttum aðstæðum og þörfum. Það eru eiginleikar sem við munum þurfa á að halda í framhaldinu, því við erum rétt lögð af stað.
Góða helgi!
Páll Matthíasson