Japönsk stjórnvöld ætla að gefa Landspítala 12.200 töflur af veirulyfinu Favipiravir, sem einnig er þekkt undir nafninu Avigan. Lyfið er framleitt af lyfjafyrirtækinu Fujifilm. Þetta mun nægja sem meðferð fyrir 100 sjúklinga er veikst hafa illa af kórónaveirunni SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19. Tilkynnt var um gjöfina 20. apríl 2020.
„Favipiravir er veirulyf sem þróað var í Japan og hefur verið notað þar til að meðhöndla inflúensu en nú hefur komið í ljós að lyfið hefur einnig virkni gegn SARS-CoV-2 með því að hamla gegn eftirmyndun erfðaefnis veirunnar,“ segir Magnús Gottfreðsson, prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum hjá Landspítala, sem hefur verið einn fjölda tengiliða innan spítalans við undirbúning þess að taka við gjöfinni. Auk þess að gefa sjúklingum lyfið mun Landspítali láta fara fram klíníska rannsókn á virkni þess. Verið er að ganga frá lyfinu til flutnings og er það væntanlegt í byrjun maí.
Bolli Thoroddsen og starfsmenn japansk-íslenska ráðgjafarfyrirtækis hans, Takanawa, útveguðu lyfið frá japanska lyfjafyrirtækinu Fujifilm. Að þeirra sögn er óhemju mikil eftirspurn, jafnvel kapphlaup eftir lyfinu frá a.m.k. 50 löndum. Því var leitað liðstyrks utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, sem skrifaði utanríkisráðherra Japans vegna málsins. Jafnframt, beitti Hitoshi Ozawa, japanski sendiherrann á Íslandi, sér gagnvart japanska utanríkisráðuneytinu. Heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir, starfsfólk utanríkisráðuneytisins í Reykjavík og Japan auk fjölda annarra lögðu verkefninu lið.
Velvilji Japana í garð Íslendinga, nú sem fyrr, er líka talinn hafa skipt máli.
Auk lyfsins útvegaði Takanawa Landspítala 60.000 gæða sýnatökupinna og sýnaglös. Pinnarnir verða stærsti hluti þeirra sýnatökupinna sem spítalinn notar.
Japanski framleiðandinn merkti sendinguna með íslenska fánanum og skilaboðunum „Gerum okkar besta“.