Landspítali hefur nú á vormánuðum 2020 uppfyllt græn skref í ríkisrekstri (1 og 2) fyrir starfsemina í Skaftahlíð.
Græn skref ríkisstofnana er verkefni um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi og efla umhverfisvitund starfsmanna. Í hverju skrefi eru um 30 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í rekstri sínum. Áherslan er á skrifstofur og því eiga grænu skrefin einkum við um skrifstofur Landspítala Skaftahlíð en ekki aðrar starfsstöðvar, t.d. klíník og aðrar skrifstofur sem eru litlar einingar. Þó eru fjölmargar aðgerðir á öðrum starfsstöðvum nú þegar uppfylltar og hluti af umhverfisstarfi spítalans.
Vinna við skrefin tvö hófst í janúar og lauk í mars en vegna Covid-19 var úttekt Umhverfisstofnunar gerð á fjarfundi og henni lauk með fjarskoðun.
Umsögn Umhverfisstofnunar: „Eins og við var að búast er allt í topp standi hjá ykkur, umhverfisstarfið ykkar er algjörlega til fyrirmyndar.“