Kæra samstarfsfólk!
Segja má að í upphafi vikunnar, við afléttingu neyðarstigs almannavarna, hafi orðið kaflaskil í baráttunni við Covid-19 farsóttina. Landspítali fór aldrei á neyðarstig en starfaði samkvæmt hættustigi viðbragðsáætlunar spítalans til 18. maí. Nú erum við á óvissustigi og gerum ráð fyrir að verða á því fram eftir sumri.
Óhætt er að segja að Landspítali hafi staðist mikið álagspróf þegar við glímdum við þennan heimsfaraldur. Starfsfólk spítalans sýndi sínar bestu hliðar og leiddi spítalann í gegnum kófið, spítalinn virkaði í raun eins og smurð vél þar sem hver hlekkur sýndi styrk sinn. Takk enn og aftur, öll!
Við köstum nú aðeins mæðinni á meðan við keyrum upp reglulega starfsemi fram að langþráðum og verðskulduðum sumarleyfum. Sumarið verður vissulega áskorun í ár, eins og oft, en þó er ánægjulegt að segja frá því að vel hefur gengið að manna og verða sumarlokanir í algjöru lágmarki.
Mig langar á þessum tímapunkti að nefna sérstaklega fræðslu og stuðning sem fólki býðst í kjölfar álagsins sem fylgdi heimsfaraldrinum. Sett hefur verið saman fræðsluefni á vef okkar. Þetta er samstarfsverkefni sálfræðiþjónustu/geðþjónustu og stuðnings- og ráðgjafateymis skrifstofu mannauðsmála. Efnið sem hefur verið tekið saman er jafnt fyrir starfsfólk Landspítala og aðra landsmenn. Stuðnings- og ráðgjafarteymi spítalans hefur verið ötult að fara á viðrunarfundi hjá einingum sem unnu mikið í Covid-19 og sú vinna mun halda áfram í sumar.
Í síðustu viku skilaði Landspítali áhættumati sínu, að beiðni heilbrigðisráðuneytisins, vegna fyrirhugaðrar opnunar landamæra landsins sem stjórnvöld áætla þann 15. júní næstkomandi. Að matinu komu framkvæmdastjórn, farsóttanefnd, rannsóknarkjarni og viðbragðsstjórn spítalans. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan sé sú að komi til innlagna sjúklinga með Covid-19 eða vegna gruns um sjúkdóminn megi búast við að það verði umtalsverð áskorun fyrir spítalann. Við höfum hins vegar vitað að við þurfum áfram að halda vöku okkar og vera tilbúin að bregðast við þegar nýjar sýkingar koma upp í kjölfar opnunar landsins. Það er veruleiki næstu mánaða – og jafnvel lengur – en við munum þar auðvitað búa að reynslu síðustu vikna og mánaða og gegna okkar hlutverki af sama krafti og þolgæði og ávallt.
Framundan er hvítasunnuhelgin með einum auka frídegi sem ég vona að þið njótið, þótt mörg standi vaktina.
Góða helgi!
Páll Matthíasson