Kæra samstarfsfólk!
Í dag er kvenréttindadagurinn og ástæða til að fagna konum og verkum þeirra um land allt. Við á Landspítala hljótum að fagna sérstaklega enda eru upphafsár spítalans samofin sögu öflugra kvenna sem sáu til þess að loks reis Landspítali hér fyrir ríflega 90 árum. Konur hafa alla tíð verið máttarstólpi starfsins á spítalanum, bæði í hópi öflugra starfsmanna í öllum stéttum og sömuleiðis einörðustu stuðningsmanna spítalans í góðgerðastarfi í þágu hans. Til hamingju með daginn konur, til hamingju öll!
Fyrir réttri viku var ársfundur Landspítala haldinn í Hringsal spítalans með heldur óvenjulegu sniði. Fyrir lá að ekki yrði hefðbundinn fjölmennur fundur í stórum sal úti í bæ heldur var ákveðið í ljósi aðstæðna að hafa fundinn að mestu með rafrænum hætti. Dagskrána má sjá hér. Á staðnum var fámennt, eðli máls samkvæmt, en góðmennt sömuleiðis. Það var að vanda ánægjulegasti þáttur dagskrárinnar að veita starfsfólki viðurkenningu fyrir vel unnin störf, bæði einstaka starfsmönnum sem og hópum starfsmanna. Viðbrögð okkar við Covid-19 faraldrinum fengu mikla athygli á fundinum. Við horfðum í baksýnisspegilinn á þennan kafla kófsins hverfa og höldum áfram veginn með mikinn lærdóm í farteskinu. Þar er af ótrúlega miklu af taka bæði í ferlum og starfsháttum, nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu og eflingu göngudeildarstarfsemi en ekki hvað síst í vísindum og menntun. Maður getur ekki annað en enn eina ferðina fyllst gleði og stolti af því að tilheyra því öfluga starfsliði sem Landspítali hefur á að skipa. (Sjá hér ársskýrslu 2020 og efni ársfundarins í texta og myndskeiðum)
Í byrjun apríl óskaði ég eftir því við heilbrigðisráðherra að okkur yrði gert kleift að umbuna með beinum hætti starfsfólki sem tók þátt í þessu gríðarlega átaki með okkur. Við því var snöfurmannlega brugðist og lagði heilbrigðisráðherra fram tillögu þessa efnis sem Alþingi samþykkti. Við höfum nú undanfarnar vikur útfært greiðslur til starfsmanna í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir. Í nýlegri örkönnun skrifstofu mannauðsmála kom fram að nær allir starfsmenn töldu sig hafa orðið fyrir áhrifum í starfi sínu vegna Covid-19. Það rímar ágætlega við þá ákvörðun að allir starfsmenn, að sjálfum mér og aðstoðarmanni mínum, framkvæmdastjórum og forstöðumönnum undanskildum, munu fá umbun greidda nú um næstu mánaðamót. Auðvitað var það svo að álagið var mismikið og því hefur starfsfólki verið skipt í hópa – annars vegar þau sem starfa á einingum sem mest komu að þjónustu við Covid smitaða (A- hópur) og svo aðrar starfseiningar spítalans (B-hópur). Upphæð umbunarinnar fer svo eftir viðveru starfsmanns í mars og apríl s.l. og getur numið allt að 250 þúsund fyrir þá sem skipa A-hóp og 105 þúsund fyrir aðra. Þetta hefur reynst flókið í útfærslu en við höfum átt mikið samráð hér á spítalanum vegna þessa og teljum að þetta sé sú leið sem rétt er að fara. Umbunin er þakklætisvottur frá stjórnvöldum sem að mínu mati sýnir skilning á þessu flókna verkefni sem þó er hvergi nærri lokið.
Það var stutt stundin milli stríða. Nú þegar starfsemi spítalans er að færast í hefðbundinn sumarbúning og fólk á leið í sumarfrí er allt útlit fyrir að á mánudagsmorgun skelli á allsherjarverkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ég hef margoft sagt að ekkert sé verra og meira truflandi fyrir starfsemi sjúkrahúsa en verkfall og stend við það. Eftir erfiðan vetur og sérstaklega þungan fyrir starfsfólk okkar, þar sem hjúkrunarfræðingar voru sannarlega hryggjarstykkið í starfseminni, er afleitt að þetta sé sú staða sem uppi er. Landspítali sinnir mikilvægri en jafnframt viðkvæmri og flókinni starfsemi og það er skaðlegt þegar starfsemin er sett í uppnám vegna kjaradeilna ríkis og stéttarfélaga. Ég hef þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem skapast mun hér strax á mánudagsmorgun og get ekki lagt nógu mikla áherslu á að samningsaðilar nái saman. Ábyrgð ríkisins og samningsaðila er gríðarleg og ég óska þeim góðs gengis í að finna farsæla lausn mála sem allra fyrst.
Góða helgi!
Páll Matthíasson