Jafnréttissjóður hefur veitt jafnréttisnefnd Landspítala og hjúkrunarfræðideildum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands 4,7 milljóna króna styrk fyrir verkefnið „Strákar og hjúkrun: Kynning fyrir stráka í 9. bekk grunnskóla.“
Eygló Ingadóttir, formaður jafnréttisnefndar Landspítala, og Hildur Sigurðardóttir, lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands tóku við styrknum 19. júní 2020.
Háskólinn í Reykjavík hefur í nokkur ár boðið stelpum í 9. bekk upp á viðburðinn „Stelpur og tækni“ til til að hvetja þær til náms í tæknigreinum. Nú eru ætlunin að bjóða strákum í 9. bekk í grunnskóla upp á viðburðinn „Strákar og hjúkrun“. Markmiðið er að vekja áhuga stráka á störfum hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra, breyta staðalímyndum og fjölga körlum sem leggja fyrir sig hjúkrunarstörf. Ætlunin er að halda viðburðina sama dag þar sem 9. bekkjar stelpum verði boðið á „Stelpur og tækni “og strákum upp á „Strákar og hjúkrun“.
Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Úthlutað er úr sjóðnum 19. júní ár hvert. Að þessu sinni var 92 milljónum úthlutað til 19 verkefna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhenti styrkina formlega í Hörpu.