Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni var greidd umbun til starfsfólks heilbrigðisstofnana vegna sérstaks álags sem Covid-19 skapaði. Ég fjallaði um útfærslu og fyrirkomulag þessa í pistli 19. júní síðastliðinn og þar er einnig að finna nánari útskýringar á þeirri aðferðarfræði sem beitt var. Við áttum samráð við stjórnendur hér á Landspítala og einnig á öðrum heilbrigðisstofnunum við útfærsluna. Það var ekki létt verk að komast að niðurstöðu um það hvernig yrði að þessu staðið. Allt orkar nefnilega tvímælis þá gert er. Mig langar til að þakka þeim sem hafa tekið sér tíma til að skrifa mér. Það er mér fullljóst að þið hafið gefið ykkur 100% í þessa baráttu og ég skynja að vonbrigði hjá sumum vegna umbunarinnar snúast ekki endilega um upphæðina sem var greidd út heldur frekar um að hún hafi ekki líka verið 100%. Það skil ég vel. Mér bárust áhrifarík bréf, t.d. dagbókarbrot hjúkrunarfræðings úr kófinu og afar fallegt og innblásið bréf frá ættingja annars hjúkrunarfræðings sem lengi hefur starfað hjá okkur. Það minnir mig á fórnir fjölskyldna okkar sem jafnvel sáu ekki fólkið sitt nema í mýflugumynd á þessum tíma. Þetta verður aldrei fullþakkað eða umbunað svo allir verði sáttir. Þær athugasemdir og ábendingar sem mér hafa borist urðu til þess að framkvæmdastjórn ákvað síðastliðinn þriðjudag að kalla formlega eftir athugasemdum og gefa starfsfólki rúman tíma til að skila þeim. Við munum svo yfirfara málið nú í sumar og gera viðeigandi ráðstafanir í kjölfarið, eftir því sem unnt er.
Umbætur eru stöðugt í fókus á Landspítala. Í þeim höfum við öryggi sjúklinga alltaf að leiðarljósi um leið og við straumlínulögum þjónustuna. Breyting á lyfjaþjónustu er eitt dæmi um afar árangursríkt verkefni. Á Landspítala er veitt mjög flókin þjónusta og þar er þjónusta vegna lyfja engin undantekning. Verkefnið snýst um að efla og samþætta lyfjaþjónustu á legudeildum og þannig styðja sérstaklega við starf hjúkrunarfræðinga þannig að tími sem fer í lyfjaumsýslu minnki og þjónusta við rúm sjúklings aukist. Fjórir helstu þjónustuþættirnir eru samþættir; birgðastýring, lyfjaskömmtun, blöndun lyfja og ekki hvað síst þjónusta klínískra lyfjafræðinga sem heldur betur hafa sannað gildi sitt á spítalanum. Mikil ánægja er með verkefnið og má kynnast því betur hér í meðfylgjandi myndskeiði.
Við siglum nú inn í mesta sumarleyfistímann á spítalanum. Til okkar er nú kominn stór hópur fólks sem tryggir að við getum sjálf farið í sumarfrí og notið sumarsins, eftir afar erfiðan vetur. Ég er þakklátur þessu fólki, sem gjarnan er jú ungt fólk sem leggur stund á heilbrigðisvísindanám, og býð það velkomið. Ég veit að allir leggja sig fram um að bjóða þennan hóp velkominn og tryggja að við eigum áframhaldandi gott samstarf við hvern og einn enda um okkar framtíðarfólk að ræða! Við hittum þetta fólk auðvitað hér á veturna enda eru að jafnaði um 2000 námsmenn við nám og störf hér. Meðal annars taka þeir mjög virkan og afgerandi þátt í vísindastarfi á Landspítala sem er gríðarlega umfangsmikið enda er Landspítali háskólasjúkrahús og vísindastarf eitt meginhlutverk stofnunarinnar. Þessu má kynnast nánar í myndskeiðinu sem hér fylgir þar sem fjallað er um fjölbreytt rannsóknarverkefni okkar yngsta vísindafólks.
Góða helgi!
Páll Matthíasson