Kæra samstarfsfólk!
Eftir annasamar vikur þá tók sýkla- og veirufræðideild Landspítala yfir alla þætti greiningarvinnu vegna skimunar á landamærum vegna COVID-19 farsóttarinnar nú síðasta sunnudag 19. júlí. Það er ánægjulegt frá því að segja að greiningarvinnan hefur gengið eins og í sögu og eiga allir þeir mikið hrós skilið sem að komu og sérstaklega starfsfólk sýkla- og veirufræðideildar. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kom ásamt Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra og Elsu B. Friðfinnsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu sjúkrahúsa og sérþjónustu, í heimsókn á veirurannsóknarstofuna í Ármúla 1a í gær. Það var frábært að geta sýnt ráðherra það framúrskarandi starf sem þarna er unnið alla daga.
Viðbrögð heilbrigðiskerfisins við hinni erfiðu COVID-19 farsótt hafa vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Í dag birtist í hinu virta vísindatímariti Journal of Internal Medicine grein eftir starfsfólk Landspítala og Háskóla Íslands. Greinin lýsir tilurð og skipulagi COVID-19 göngudeildarinnar hér á spítalanum og hvernig þjónustu við sjúklinga sem greindust með COVID-19 var háttað. Gerð er grein fyrir útfærslu einstaklingsmiðaðrar þjónustu sem byggði á áhættu- og einkennamati. Það er mat greinarhöfunda að þjónusta göngudeildarinnar hafi, ásamt öðrum mikilvægum samfélagsaðgerðum (t.d. skimun, smitrakningu, sóttkví og einangrun), dregið úr innlögnum á sjúkrahús og mögulega fækkað dauðsföllum.
Þetta þarf ekki að koma á óvart. Þann 15. júlí síðastliðinn birtist í vísindatímaritinu The Lancet grein sem dregur saman helstu þætti sem skipta máli í viðbragði þjóða heims við COVID-19 faraldrinum. Þegar sá listi er skoðaður þá sést að Ísland hefur gert flest það sem skiptir mestu í réttum viðbrögðum við farsóttinni. Þar er um að ræða langa keðju mismunandi þátta sem verða að vera í lagi og við sem samfélag getum hrósað happi og jafnframt klappað okkur á bakið yfir þeim árangri sem náðst hefur. Fréttir sem bárust í dag af tveimur nýjum innanlandssmitum minna okkur hins vegar á að verkefninu er langt í frá lokið.
Njótið góða veðursins!
Páll Matthíasson