Kæra samstarfsfólk
Í vikunni komu út Starfsemisupplýsingar Landspítala. Að vanda eru þetta áhugaverðar upplýsingar en í ár eru áhrif Covid-19 faraldursins auðvitað sérstaklega áberandi. Starfsemin breyttist mikið þann tíma sem ástandið var sem verst í faraldrinum og ekki hægt að segja að allt sé komið í sama horf enda gætir áhrifa takmarkana vegna sóttvarna ennþá víða. Þannig hefur rúmanýting verið minni í ár miðað við sama tímabil í fyrra og sömuleiðis hefur legudögum fækkað. Hins vegar hefur okkur tekist að fjölga aðgerðum á dagdeild og rannsóknum á rannsóknarstofum hefur sömuleiðis fjölgað. Ekki kemur heldur á óvart að sjá gríðarlega aukningu í meðferðarsímtölum og rafrænum samskiptum á göngudeildum og merkjum við þar áhrif göngudeildar Covid-19 mest. Við fylgjumst náið með legulengd sjúklinga spítalans enda mikilvægt að fólk komist af sjúkrahúsinu og heim til sín eða í annan viðeigandi stað sem allra fyrst að meðferð lokinni. Staðan síðustu 13 mánuði hefur verið þannig að 95% lega eru innan við 30 dagar en sá hópur á hins vegar aðeins rétt rúman helming allra legudaga á spítalanum. Hinn tæplega helming legudaga á fámennur hópur þeirra sem liggja lengur hjá okkur, stærstur hluti í bið eftir öðru úrræði. Við sáum mjög jákvæða breytingu í rétta átt á þessari stöðu í vor þegar nýtt hjúkrunarheimili var opnað við Sléttuveg. Flæði á spítalanum batnaði til mikilla muna sem var dýrmætt í Covid-19 faraldrinum. Sá vandi sem við höfðum glímt við á bráðamóttökunni þar sem sjúklingar þurftu að bíða langt úr hófi fram snarminnkaði og verkefni okkar hefur verið að sjá til þess að ekki sæki aftur í sama farið.
Þann 1. september síðastliðinn var kynnt niðurstaða gerðardóms sem ríkissáttasemjari skipaði í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Niðurstaðan kallar á talsverða vinnu hér á Landspítala og höfum við unnið að útfærslunni í samvinnu við Fíh. Það er von mín að unnt verði að kynna niðurstöðu hið fyrsta og að langri kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við viðsemjanda sinn ljúki þar með. Ég hef sagt það áður og segi það enn – fátt er jafn óheppilegt og kjaradeilur inn í viðkvæma starfsemi Landspítala.
Í vikunni fór ég í sérlega skemmtilega og hvetjandi heimsókn á göngudeild B3 í Fossvogi. Þar tóku á móti mér Arnar Þór Guðjónsson yfirlæknir og Sólveig Sverrisdóttir deildarstjóri ásamt Birnu Melsted ritara og Adeline Tracz verkfræðingi frá HUT. Á B3 hefur undanfarið ár verið í gangi tilraunaverkefni sem miðar að því að koma upp staðsetningarbúnaði fyrir sjúklinga, starfsfólk og verðmætan búnað. Þessi tilraun hefur gefist mjög vel og mælst afar vel fyrir hjá sjúklingum göngudeildarinnar og starfsfólki. Markvissari og öruggari þjónusta í flóknu umhverfi er markmiðið og það er ljóst að skipulagning vinnunnar er miklu auðveldari með þessari nálgun. Tæknin býður upp á fjölmargar aðra möguleika og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun á þessari nútíma tækni.
Góða helgi öll sem eitt.
Páll Matthíasson
Ljósmynd: Frá vinstri: Sólveig H. Sverrisdóttir, deildarstjóri göngudeildar skurðlækninga, Arnar Þór Guðjónsson yfirlæknir háls-, nef- og eyrnalækninga, Páll Matthíasson forstjóri, Adeline Tracz, verkfræðingur í hugbúnaðarlausnum ogBirna Melsted, skrifstofumaður göngudeild skurðlækninga.