Kæra samstarfsfólk!
I.
Í vikunni virðist sem Covid-19 hafi náð sér á flug og talsvert er nú um smit í samfélaginu. Ég boðaði viðbragðsstjórn og farsóttanefnd til fundar vegna þessa í hádeginu og bið ykkur starfsmenn að kynna ykkur tilkynningu á innri vef sem birtist fyrr í dag. Við erum uggandi yfir stöðunni en þó eru ekki efni til að hækka viðbúnaðarstig spítalans af óvissustigi enda hefur þessi bylgja ekki haft slík áhrif á starfsemina enn sem komið er. Við fylgjumst þó vandlega með og verðum fljót að breyta áherslum reynist þörf á því. Svo virðist vera sem fjöldi ungs fólks sé í hópi hinna smituðu og á Landspítala erum við svo lánsöm að hafa einmitt um þessar mundir stóra hópa ungs fólks í verknámi hvers konar. Um leið og ég minni þau öll á að huga sérstaklega að smitvörnum, bæði hér á spítalanum og utan hans, leyfi ég mér að minna okkur öll á það að við erum jú öll almannavarnir! Reyndar er óhætt að segja að sennilega er óvíða jafnlítið um smit og einmitt á Landspítala en nýlega sýndi rannsókn hjá klínísku starfsfólki að einungis 0,25% reyndust hafa mótefni fyrir Covid-19. Í fyrsta faraldri Covid-19 á Íslandi reyndist það ein af mörgum áskorunum hversu margir starfsmenn þurftu að fara í sóttkví vegna útsetningar fyrir sjúkdómnum. Nú höfum við hins vegar haft grímuskyldu í starfseminni frá því í sumar og það hefur forðað mörgum frá því að þurfa að fara í sóttkví. Ég vil því ítreka enn og aftur tilmæli um að nota grímur við störf á spítalanum þegar ekki er unnt að halda fjarlægðamörk enda eru þá:
• minni líkur á að smitast af COVID eða öðrum öndunarfæraveirum í samskiptum við smitaða einstaklinga
• minni líkur á að smita aðra ef maður er sjálfur smitaður
• hverfandi líkur á að lenda í sóttkví vegna útsetningar af smituðum einstaklingi.
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og hér er nú einmitt ein frá sjálfri farsóttanefnd:
Ef þú notar grímu
og notar hana rétt
þá yrkjum við um þig rímu
og búum til um það frétt.
II.
Ég fór einmitt í heimsókn á COVID-19 göngudeild spítalans í vikunni og fékk útskýringar á því frábæra verklagi sem er einn hornsteinn þess að Íslandi hefur vegnað vel í viðbrögðum við farsóttinni. Meðfylgjandi er mynd sem þið verðið að taka trúanlegt að sé af kjarnastarfsfólki göngudeildarinnar en grímuskylda var að sjálfsögðu í hávegum höfð í heimsókninni.
III.
Í dag er alþjóðlegur dagur launajafnréttis og af því tilefni vil ég nota tækifærið og minna á jafnlaunakerfi okkar hér á Landspítala sem við fengum vottað af Versa vottun í febrúar síðastliðinn. Stefna Landspítala er að tryggja starfsfólki sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, eins og okkur ber á grundvelli íslenskra jafnréttislaga og í samræmi við jafnlaunastaðal, og með því móti fylgjum við einnig stöðlum sem lagðir eru af alþjóðlegu samstarfi um jöfn laun sem mannréttindi, EPIC (Equal Pay International Coallition). Þetta gerum við með því að vera meðottað jafnlaunakerfi, gegnsæi í skilgreiningum og mati á inntaki allra starfa og jafnt aðgengi starfsfólks að niðurstöðum reglubundinna launagreininga. Þótt við höfum fengið vottun þá standa út af mikilvægir þættir sem verið er að vinna að. Jafnlaunakerfi Landspítala er enda langtíma umbótavegferð. Markmiðið er að jafnlaunastefna Landspítala verði betur uppfyllt þannig að starfsfólk Landspítala fái greidd jöfn laun og njóti sömu starfskjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Góða helgi!
Páll Matthíasson