Kæra samstarfsfólk!
Við störfum nú á hættustigi vegna COVID-19 og höfum gert í þessari bylgju frá 20. september síðastliðnum. Verkefnum hér á spítalanum fjölgar mjög hratt, á COVID-19 göngudeildinni, á legudeildum og á gjörgæsludeildum. Þetta kallar á miklar tilfærslur í starfseminni, lokun deilda og mörg í okkar hópi fá ný en líklega kunnugleg hlutverk.
Það mátti margt læra af fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins hér á landi og við á Landspítala létum það lærdómstækifæri ekki fram hjá okkur fara. Við erum því vel í stakk búin hvað varðar faglega þætti í baráttunni við veiruna, hvort heldur varðar þekkingu og búnað eða afburða hæft starfsfólk.
Í viðbúnaðinum nú höfum við þegar margfaldað afköst COVID-19 göngudeildarinnar, þar sem fram fer fjarheilbrigðisþjónusta við smitaða sem og klínísk þjónusta, fyrst og fremst í Birkiborg í Fossvogi. Smitsjúkdómadeild A7 sinnir nú einungis COVID-19 sjúklingum og lungnadeild A6 býr sig undir að vera þeirri deild til fulltingis. Til að þetta megi verða höfum við breytt og aukið starfsemi á gigtar- og almennri lyflækningadeild B7 og flutt til og dregið úr dag- og göngudeildarstarfsemi. Það hefur verið dregið verulega úr starfsemi skurðstofa í Fossvogi i þessari viku og það sama mun verða uppi á teningnum í næstu viku við Hringbraut. Þá verða samtals 9 af 19 skurðstofum lokaðar. Áfram sinnum við að sjálfsögðu lífsbjargandi og öðrum mjög brýnum aðgerðum. Með þessu móti er okkur kleift að efla starfsemi gjörgæsludeilda og fjölga rýmum þar.
Þótt við kunnum betur til verka nú þá er sérstök áskorun í þessum faraldri sú staðreynd að spítalinn er ekki með sama hætti tilbúinn til að mæta mikilli holskeflu verkefna og hann var í vor. Þetta ræðst einkum af tvennu. Annars vegar þá glímdum við í upphafi fyrsta faraldurs við verulegan útskriftavanda, einkum vegna þess að fjölmargt fólk sem var útskriftarhæft beið á spítalanum úrræða annars staðar. Hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg var opnað í lok febrúar og fóru þá frá okkur um 40 einstaklingar þangað og á önnur hjúkrunarheimili. Hins vegar var starfsemi utan spítalans afar takmörkuð og allt þjóðfélagið í hægagangi sem fækkaði hefðbundnum verkefnum á spítalanum þannig að við gátum einhent okkur í COVID-19 tengd verkefni. Staðan er önnur nú, fjöldi einstaklinga bíður þess aftur að komast af spítalanum en ekki verið að opna neitt hjúkrunarheimili. Samfélagið keyrir síðan á því sem næst hefðbundum krafti með auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Til að bregðast við þessu höfum við átt í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og samstarfsstofnanir sem við gerum ráð fyrir að skili árangri fljótt.
Allt kallar þetta á gríðarlega samvinnu og einbeittan vilja okkar allra til að mæta þessari áskorun með sama myndarbrag og við gerðum fyrr á árinu. Auðvitað vildum við helst vera að vinna upp hluti sem þurftu að bíða meðan á fyrstu bylgju faraldursins stóð, ekki vera enn að glíma við COVID-19. Landspítali er samt bráðaspítali, við erum vön að takast á við óvæntar áskoranir og saga spítalans er saga þrautseigju, fagmennsku og sveigjanleika starfsfólks hans. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir samvinnuna í þessu snúna verkefni en einnig vil ég þakka sjúklingum og aðstandendum sem hafa mátt þola ýmsan tilflutning og hömlur í samskiptum hjá okkur.
Takk öll!
Páll Matthíasson