Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á hættustigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans.
Tilkynningar og áréttingar dagsins
1. Heimsóknir eru almennt heimilar á Landspítala, með þeim takmörkunum sem tilgreindar eru á ytri vef spítalans.
2. Snertiskjáir til innskráningar verða áfram opnir þar sem nauðsynlegt er. Nauðsynlegt er að spritta hendur fyrir og eftir innskráningu. Þá eru sprittklútar við skjáina sem fólk getur notað og eins eru skjáir reglulega sótthreinsaðir af starfsfólki Landspítala.
3. Göngudeildir verða áfram opnar eftir því sem kostur er og útfæra deildir hvernig fjarlægðamörk eru virt. Einungis skal boða sjúklinga á staðinn ef nauðsynlegt er en sinna eftir því sem kostur er sjúklingum með símaviðtölum.
4. Matsalir á Landspítala eru áfram opnir en virða ber tveggja metra reglu, sérstaklega þegar matast er.
5. Minnt er á að 2 metra regla gildir einnig í kaffistofum deilda.
6. Allir starfsmenn sem geta sinnt starfi sínu heiman frá skulu gera það, í samráði við sinn næsta yfirmann. Því er beint til stjórnenda að halda stöðufundi með starfsmönnum sem vinna slíka fjarvinnu í upphafi og við lok vinnudags.
7. Unnið er að útfærslu hópaskiptinga á starfsstöðvum og stöðu þeirra starfsmanna sem fara milli starfsstöðva. Niðurstöður verða kynntar á morgun, 7. október.
8. Tölulegar upplýsingar:
Á Landspítala eru nú:
15 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid 19, 24 frá upphafi.
Þar af 4 á gjörgæslu og þrír í öndunarvél.