Þrjú bestu ágrip veggspjalda á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindum að hausti, í Hringsal 7. október 2020, voru verðlaunuð sérstaklega.
Verðlaunahafarnir voru Bylgja Hilmarsdóttir, Aron Hjalti Björnsson og Íris Kristinsdóttir.
Verðlaunin eru 100 þúsund krónur í formi kynningar/ferðastyrks á verkefnum sínum. Verðlaunahafar héldu örfyrirlestur um verkefnin sín.
Verðlaunaágrip voru valin úr 48 innsendum ágripum vísindarannsókna árið 2020. Vísindaráð hafði veg og vanda við mat ágripa sem bárust og velja verðlaunahafana.
Aron Hjalti Björnsson: Áhrif TNF-a hemla á sýklalyfjanotkun sjúklinga með iktsýki
Sýkingar eru þekkt vandamál meðal sjúklinga með iktsýki og þessi sjúklingahópur er líklegri til að fá alvarlegri sýkingar en jafnaldrar þeirra. Í verkefninu er skoðuð sýkingalyfjanotkun hjá öllum einstaklingum með iktsýki sem voru að hefja sína fyrstu meðferð með TNFα-hemli á árunum 2005-2015. Úr lyfjagagnagrunni Embættis Landlæknis voru sóttar upplýsingar um sýkingalyfjanotkun þessara sjúklinga á tímabilinu tvö ár fyrir og eftir fyrstu meðferð með TNFα-hemli. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar og sýnir hvernig sýkingalyfjanotkun þessara sjúklinga eykst samhliða meðferð.
Iktsýki er liðbólgusjúkdómur sem leggst fyrst og fremst á smáliði í höndum og fótum, en sjúkdómurinn leggst einnig á aðra liði. Iktsýki er algengasti fjölliðbólgusjúkdómurinn og er talið að 1% fullorðinna Íslendinga hafi sjúkdóminn. Meðferð iktsýki felst í ónæmisbælandi eða ónæmisstýrandi meðferð. Ein slík meðferð eru líftæknilyf sem flokkast til TNFα-hemla, en þau eru notuð í veikari einstaklingum þar sem önnur lyf hafa ekki skilað fullnægjandi meðferðarárangri. Þessi lyf eru sértæk og hindra virkni TNFα í líkamanum. TNFα er bólguboðefni sem spilar miðlægan þátt í þeirri bólgumyndun sem á sér stað í liðbólgusjúkdómum og því eru TNFα-hemlar eftirsóknarvert meðferðarúrræði. Hins vegar hefur TNFα einnig mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að vörnum líkamans gegn sýkingum og því hafa læknar haft áhyggjur af aukinni tíðni sýkinga hjá þessum viðkvæma sjúklingahópi. Rannsóknir hafa sýnt að meðferð með TNFα-hemli eykur tíðni sjúkrahúsinnlagna vegna alvarlegra sýkinga. Lítið er vitað um hvaða áhrif TNFα-hemlar hafa á sýkingar sem leiða ekki til sjúkrahúsvistunar en gætu haft áhrif á lífsgæði þessara sjúklinga. Markmið okkar er að bæta við þá þekkingu.
Að rannsókninni standa Aron Hjalti Björnsson, sérnámslæknir á öðru ári í lyflækningum og doktorsnemi, og Þorvarður Jón Löve, leiðbeinandi og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Samstarfsaðilar eru; Gerður Gröndal yfirlæknir gigtarlækninga á Landspítala og klínískur prófessor; Ólafur Pálsson sérnámslæknir í gigtarlækningum í Lundi og doktorsnemi; Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga; Pétur S. Gunnarsson klínískur lyfjafræðingur og lektor; Björn Guðbjörnson prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Íris Kristinsdóttir: Einkennalaus meningókokkasýklun meðal barna, unglinga og ungs fólks á Íslandi
Meningókokkar eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum sýkingum, svo sem heilahimnubólgu og blóðsýkingum, en hluti fólks ber einnig bakteríuna án þess að hún valdi einkennum. Meningókokkar C voru algengustu meinvaldandi meningókokkarnir á Íslandi. Eftir að bólusetningar hófust gegn meningókokkum C hér á landi árið 2002 hafa sýkingar af þeirra völdum orðið afar sjaldgæfar og meningókokkar B verið algengustu meinvaldandi meningókokkarnir á Íslandi. Á undanförnum árum hafa sést breytingar á faraldsfræði hjúpgerða meningókokka í Evrópu og aukning sýkinga af ýmsum stofnum. Ekki hafa áður verið gerðar rannsóknir á einkennalausri meningókokkasýklun á Íslandi. Lítið er vitað um beratíðni N. meningitidis á Íslandi, hvaða hjúpgerðir eru ríkjandi hjá einkennalausum berum og hve lengi sýklun varir. Sýni voru tekin úr nefkoki/hálsi hjá leikskólabörnum, 10. bekkingum og menntaskólanemum og sýnin ræktuð með tilliti til meningókokka. Berum hefur verið fylgt eftir með endurteknum sýnatökum. Til stendur að gera hjúpgerðargreiningu á meningókokkunum, sem og heilgenaraðgreiningu á meningókokkum frá langtímaberum. Niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið vísbendingar um hvort tilefni sé til að bæta við eða breyta meningókokkabólusetningum barna/ungmenna á Íslandi. Einnig geta þær varpað ljósi á þætti sem hafa áhrif á langvarandi sýklun meningókokka.
Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Írisar Kristinsdóttur, læknakandídats og doktorsnema við Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinendur eru Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir og Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum.
Bylgja Hilmarsdóttir: Hlutverk PLD2 í bandvefsumbreytingu þekjufrumna og brjóstakrabbameinum
Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka bandvefsumbreytingu krabbameinsfrumna sem einn af orsakaþáttum þess að frumur mynda meinvörp og þol við krabbameinsmeðferð og út frá því leita nýrra leiða til að miða krabbameinsmeðferð sérstaklega að þessum frumum. Út frá því fannst gen, PLD2, sem þekkt er fyrir að hafa áhrif á marga boðferla sem mikilvægir eru í vexti, skriði og efnaskiptaferlum frumna. Notast var við CRISPR tækni til að skoða áhrif breyttrar PLD2 tjáningar á svipgerð brjóstafrumna. Til að hindra virkni PLD2 var notaður sértækur PLD2 hindri og einnig var tjáning PLD2 skoðuð í Metabrick brjóstakrabbameins gagnabankanum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að PLD2 tjáning er hærri í eðlilegum brjótaþekjufrumum en bandvegsfrumum kirtilsins og að breyting á tjáningu PLD2 í frumulínum hefur áhrif á svipgerð þeirra og þar með bandvefsumbreytingu þekjufrumna. Niðurstöður úr Metabrick staðfestu að PLD2 tjáning er lægri í hágráðu brjóstakrabbameinum og í krabbameinum með aukna bandvefssvipgerð. Hindrun á PLD2 hefur meiri áhrif á lifun frumna með bandvefssvipgerð en frumur með þekjuvefssvipgerð og því gæti PLD2 verið áhugavert lyfjamark í brjóstakrabbameini.
Rannsóknin var unnin við Oslo University Hospital, Institute for Cancer Research í rannsóknarhóp Gunhild Mari Mælandsmo en vísindarannsóknir rannsóknahóps hennar miða að því að finna ný lyfjamörk í krabbameinum sem myndað hafa þol við krabbameinslyfjameðferð og í myndun meinvarpa. Einnig unnu að rannsókninni samstarfsmenn við Háskóla Íslands. Fyrsti höfundur vinnur nú að vísindarannsóknum við sameindameinafræðieiningu meinafræðideildar Landspítalans.