Kæra samstarfsfólk!
I.
Mig langar að byrja á að minna ykkur á inflúensubólusetningu haustins. Þátttaka í bólusetningunni hefur verið um 70% meðal starfsfólks undanfarið ár og vaxið ár frá ári. Nú stefnum við að því að allir láti bólusetja sig enda tilgangurinn sá að vernda sjúklinga og mikilvæga starfsemi spítalans – og það hefur sjaldan verið meiri þörf á að við stöndum klár á okkar hlutverki og verkefnum. Hér geta starfsmenn séð hvar og hvenær verður bólusett.
II.
Árleg uppskeruhátíð vísinda á spítalanum var haldin í vikunni. Þessi hátíð var nú haldin í tuttugasta sinn, fram að þessu undir heitinu „Vísindi á vordögum“ en að þessu sinni „Vísindi að hausti“, af skiljanlegum ástæðum. Það er sérstaklega ástæða til að óska Davíð O. Arnar, heiðursvísindamanni Landspítala, Hrafnhildi Linnet Runólfsdóttur, ungum vísindamanni Landspítala og Viðari Eðvaldssyni styrkþega Minningar- og gjafasjóðs Landspítala Íslands til hamingju með þeirra viðurkenningar og frábæru vísindastörf.
Í ávarpi mínu á hátíðinni (sem öll fór fram með fjarfundaformi) gerði ég orð Jónasar Hallgrímssonar, „Vísindin efla alla dáð“, að umræðuefni. Þau orð eiga við í mörgum skilningi á Landspítala bæði vegna þess hvata sem vísindastörf eru öflugu starfi og starfsánægju en ekki síður vegna þess að sköpun og beiting þekkingar í gegnum kennslu og vísindi er hornsteinn heilbrigðisþjónustu. Þetta sést ekki síst í baráttu okkar gegn SARS-Cov-2 veirunni. Lykillinn að því að við getum barist gegn henni er vísindi – að við öflum okkur þekkingar á eðli veirunnar og veikindanna sem veiran veldur og að við þróum greiningarpróf, meðferðir og síðan bóluefni sem duga gegn henni. Þar liggur bókstaflega lífið við. Vísindi og vísindamenning eru lykilatriði, hornsteinar, í viðbrögðum Landspítala við veiruógninni. Vísindamenn spítalans hafa, í samstarfi við vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar, Háskóla Íslands og fleiri birt fjölmargar vísindagreinar síðustu mánuði um ýmsa þætti sem snúa að veirunni og er það þó aðeins fyrirboði þess sem koma mun.
Vísindi að hausti 2020 - yfirlit um vísindastarfsemina 2019 og efni í texta og á myndskeiðum frá uppskeruhátíðinni 7. október
III.
Þriðja bylgja faraldursins er í algleymingi. Góð vísa er ekki of oft kveðin – ég biðla til fólks að sýna því skilning að við erum að breyta starfsemi, stundum mjög hratt, til að mæta þörfum sjúklinga með COVID-19 veikindi. Það er afar mikilvægt að fagfólk í heilbrigðisgreinum, sem fæst við annað, skrái sig á bakvarðalista heilbrigðisþjónustunnar ef það hefur tök á. Það munar um hvern einstakling og sérstaklega vil ég að þessu sinni beina orðum mínum til hjúkrunarfræðinga. (Sjá myndskeiðið sem fylgir hér fyrir neðan)
IV.
Í tímaritinu Lancet birtist í gær grein eftir Juliet Bedford og félaga í ráðgjafarhópi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Ég hvet ykkur til að lesa greinina en þar er rakinn sá lærdómur sem þegar liggur fyrir um það hvernig helst má lifa með farsóttinni og halda henni í skefjum. Það er ljóst á greininni að við erum að gera alla þá hluti sem árangursríkastir eru taldir. Það er líka skýrt að samhæft átak, sóttvarnir og stuðningur almennings eru ákveðinn hornsteinn í því langhlaupi sem heimsbyggðin er nú stödd í.
Living with the COVID-19 pandemic: act now with the tools we have
V.
Að lokum þá vil ég hér birta hluta af orðum sem ég lét falla á almannavarnafundi 1. maí síðastliðinn, þau eiga ekki síður við nú en þá!.
„Þetta reynir á. Það er eitt að samstilla sig í áhlaupi, annað að halda athyglinni mánuðum saman, að passa sig, að taka skynsamlegar ákvarðanir með hliðsjón af heilsufari en líka efnahag þjóðarinnar. Þessi farsótt verður ekki unnin á einni nóttu – ekki frekar en svo mörg önnur heilsufarsvandamál. Enska orðið yfir það að vera sjúklingur, patient, er náskylt orðinu yfir þolinmæði, patience og það er engin tilviljun, þolinmæði, hæfileikinn til að gefa hlutum sinn tíma, er svo oft lykillinn að því að vinna bug á sjúkdómum.
Ég held að það sé mikilvægt að við ræktum með okkur þann eiginleika að gefa hlutum sinn tíma til að ná árangri, á næstu mánuðum.
Innan geðheilbrigðisfræða hefur á undanförnum árum vaxandi athygli beinst að hugtakinu resilience, sem á íslensku hefur stundum verið þýtt með orðinu þrautseigja eða seigla. Mér finnst reyndar að orðið þolgæði, að vera þolgóður sé kannski betra hugtak þarna, því það dregur fram að þetta snýst ekki um það að þrauka samanbitinn, heldur um það jákvæða við að þola erfiðleika, að komast í gegnum þá og læra jafnvel af reynslunni. En hvað er þá það að sýna þrautseigju, að vera þolgóður?
Það sem einkennir hinn þolgóða er hæfileikinn til að muna markmiðið sem stefnt er að, að missa ekki sjónar á því og láta ekki áföll brjóta sig heldur gefa eftir, bogna – en koma svo til baka og halda áfram ótrauður. Öll él styttir upp um síðir. Sveigjanleiki og stefnufesta eru því mikilvægustu þættir þolgæðisins. Ástæða þess að geðheilbrigðisstarfsmenn hafa áhuga á þessu hugtaki er sú að það lenda allir í áföllum á æfi sinni eða þurfa að vinna undir miklu álagi. Þolgæði er mikilvægur þáttur sem eflir okkur til að takast á við áföll, með því að byggja það upp þá styrkjumst við.
Hæfileiki einstaklinga til að sýna þolgæði og þrautseigju er ekki fasti, ekki eitthvað óbreytanlegt, heldur breytilegur. Í grunninn höfum við ákveðinn persónuleika en síðan skipta viðhorf okkar til erfiðleikanna, það hvort við skiljum ástæðu þeirra og hvort við sjáum í þeim tilgang miklu máli. Það má síðan ekki gleyma því að það umhverfi sem við búum við er gríðarmikilvægt, jafnvel mikilvægara en það hversu sterk við erum sjálf í grunninn því enginn er eyland. – Stuðningur fjölskyldu, vina og síðan velferðarkerfisins, þess opinbera kerfis sem við höfum sett upp til að styðja við hvert annað á erfiðum tímum, allt þetta er ekki síður hluti af þolgæði okkar og seiglu sem samfélags, heldur en hver einstaklingur.
Í hinu virta læknatímariti The Lancet, birtist í morgun leiðari sem fjallar einmitt um einkenni þeirra samfélaga sem best hafa náð að bregðast við faraldrinum en það eru samfélög sem hafa náð að vinna saman sem heild – í baráttu við farsótt skilar sérgæska og fókus á þröngan eigin hag fólki bara ofan í gröfina. Við þurfum að vera minnug þess að stjórnvöld hvers lands geta ekki bara gert kröfur á þegnana að sýna fórnfýsi og breyta hegðun sinni, þegnarnir geta líka gert kröfur á stjórnvöld hvers lands að standa undir þeirri ábyrgð sinni að byggja upp innviði heilbrigðiskerfisins og hugsa um almannaheill. Það er ljóst að hér eins og annar staðar þá munum við þurfa að setja aukna áherslu á að tryggja og byggja upp heilbrigðiskerfið á næstu árum. Sá heimur sem við sjáum glitta í, handan við kóf farsóttarinnar, áttar sig á mikilvægi góðra heilbrigðisvarna umfram flest annað.
Þannig að höfum í huga að tilgangurinn með því að passa okkur áfram og halda vöku okkar er sá að komast í gegnum þessa farsótt með sem allra minnstum skaða. Og við náum að auðsýna þolgæði með því að hafa í huga að tilgangurinn er að vernda það líf sem við búum við og með því að gæta hvers annars, styðja við hvert annað og muna að við erum eins og varnarkeðja, ekki sterkari en veikasti hlekkurinn, þannig að styrkjum þá sem veikast standa. Og munum að öll él styttir upp um síðir.“
Góða helgi!
Páll Matthíasson