Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á hættustigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans.
Tilkynningar og áréttingar dagsins
1. Sóttvarnir á Landspítala
Minnt er á almennar sóttvarnir á Landspítala
a. Reglulegan handþvott
b. Handsprittun
c. Sprittun sameiginlegra yfirborðsflata, t.d. í fundarsölum og á vaktherbergjum og kaffistofum
d. Grímuskylda er á Landspítala meðal starfsmanna og gesta. Einungis er heimilt að taka grímuna ofan þegar matast er
e. 2 metra fjarlægðarmörk skal virða alls staðar, eftir því sem starfsemin leyfir
Víða hefur reynst erfitt að útfæra hluta þessara sóttvarnareglna á spítalanum, einkum á þröngum kaffistofum og vaktherbergjum. Gæðastjórar munu, með aðstoð sýkingavarna, vera stjórnendum og starfsfólki innanhandar við útfærslu næstu daga.
2. Tölulegar upplýsingar, 12. október, kl. 14:00:
Á Landspítala eru nú:
24 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid 19, 47 frá upphafi þriðju bylgju
- Þar af 3 á gjörgæslu og 2 í öndunarvél
1.039 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 138 börn
80 starfsmenn eru í sóttkví A
26 starfsmenn eru í einangrun