Kæra samstarfsfólk!
Á morgun, laugardaginn 24. október, á gjörgæsludeildin okkar í Fossvogi 50 ára afmæli!
Gjörgæsludeildin er sérlega ern og hefur allan sinn starfstíma verið í sífelldri endurnýjun og stöðugri þekkingarleit. Þeir eru ófáir sjúklingarnir og fjölskyldur þeirra sem á þessum langa tíma hafa notið einstakrar þekkingar og alúðar þess frábæra starfsfólks sem þar hefur starfað og starfar nú. Aðall starfseminnar er gríðarleg þekking en sömuleiðis ótrúlegur sveigjanleiki, sem við höfum t.d. séð núna í ár þegar deildin og systurdeild hennar við Hringbraut og raunar spítalinn allur, hefur haft endaskipti til að sinna COVID-19 sjúklingum auk allra hinna sem þjónustunnar þarfnast. Mörgum sem á deildina koma er eðlilega brugðið í fyrstu við framandi umhverfið sem þar blasir við. Hins vegar er deildin annáluð fyrir einstakt viðmót starfsfólks sem auðveldar fólki þá erfiðu reynslu sem felst í því að vera sjúklingur eða aðstandandi á gjörgæslu. Reynsla og þekking á flóknu umhverfi er gríðarlega mikilvæg og langur starfsaldur gerir mannauðinn ómetanlegan. Þar er sannarlega fremst meðal jafningja Anna Vigdís Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur sem hóf einmitt störf á gjörgæsludeildinni í árdaga hennar fyrir 50 árum. Það er því ánægjulegt að óska starfsfólki og skjólstæðingum gjörgæsludeildarinnar innilega til hamingju með tímamótin. Árnaðaróskir fylgja ykkur öllum inn í spennandi framtíðina!
Hér á Landspítala notum við ýmsar leiðir til að meta hvernig okkur gengur að reka þessa mikilvægu starfsemi. Mannauðurinn er gríðarlega mikilvægur og það skiptir miklu að okkur líði vel í vinnunni. Þar ræður oft miklu okkar næsti yfirmaður og það er ekki öðru vísi með þá en aðra, endurgjöf er mikilvæg til að þróast og ná árangri í starfi. Ég vil því eindregið hvetja ykkur til að svara könnun um stjórnendur sem þau ykkar sem starfað hafa hér frá 1. júlí síðastliðnum hafið fengið senda.
Eins og við öll þekkjum þá hefur COVID-19 haft mikil áhrif á starfsemi spítalans og ljóst að svo verður enn um sinn. Við höfum fundið mikinn hlýhug frá fjölmörgum sem senda okkur gjafir, kveðjur og góðar óskir. Mig langar af því tilefni að bera ykkur þakkir og kveðjur frá ráðgjafarnefnd Landspítala sem fylgst hefur náið með framgangi mála hjá okkur. Eins er mér það sérstök ánægja að birta bréf til starfsfólks spítalans sem mér barst frá henni Kristínu Ástu, sem er 11 ára stúlka í Reykjavík. Kristín Ásta er þakklát fyrir störf okkar á Landspítala og minnir okkur á að gera okkar besta. Það ætlum við svo sannarlega að gera áfram!
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Myndin hér fyrir ofan af starfsfólkinu var tekin sumarið 2020 í tilefni af því að gjörgæslan í Fossvogi var heiðruð á ársfundi Landspítala 2020.
Nýjar myndir frá gjörgæslunni í Fossvogi
Myndirnar hér fyrir neðan eru úr bókinni „Sjúkrahús verður til“ og teknar um það leyti sem starfsemin hófst. Höfundur: Sigurlín M. Gunnarsdóttir.
Smella til að stækka.