Landspítali hefur verið færður á neyðarstig, samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans sem hefur að undanförnu verið á hættustigi. Þetta er í fyrsta sinn sem Landspítali er settur á neyðarstig eftir að núgildandi viðbragðsáætlun spítalans tók gildi árið 2006.
Ástæðan tengist útbreiddu klasasmiti á Landakoti meðal sjúklinga og starfsfólks sem teygir anga sína víðar. Um 50 sjúklingar og 30 starfsmenn hafa nú þegar greinst með Covid-19 út frá klasasmiti sem kom upp á Landakoti. Þetta fólk er núna á Landakoti, Reykjalundi og hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.
Neyðarstig er hæsta viðbúnaðarstig á Landspítala og þýðir að öllu er tjaldað til, bæði innan og utan spítalans, til að takast á við stóra áskorun í starfseminni. Mikilvægt sem aldrei fyrr er að starfsfólk sinni áfram ströngum sóttvörnum, innan sem utan Landspítala. Heilbrigðisstarfsfólk er í framlínu faraldursins og hópsmit innan Landspítala leiða af sér mikla ögrun við mönnun. Áríðandi er að starfsfólk mæti ekki til vinnu með nokkur einkenni sem gætu bent til smits og láti strax vita af slíku svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana.
Upplýsingavefur um Covid-19
Ljósmyndirnar sem fylgja fréttinni tók Þorkell Þorkelsson á Landakoti 25. október 2020