Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á neyðarstigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð að fullu og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega og oftar ef þörf krefur. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavef spítalans.
Tilkynningar og áréttingar dagsins
1. Neyðarstig vegna farsóttar á Landspítala
Landspítali starfar nú á neyðarstigi vegna farsóttar (sjá viðbragðsáætlun Landspítala bls. 41). Í því felst m.a. að stjórnendur kunna að leita til starfsmanna að starfa á öðrum einingum eða með öðrum hætti en venja er til. Starfsmenn kunna sömuleiðis að vera kallaðir til starfa í vinnusóttkví, eins raunar verið hefur. Starfsfólki eru færðar þakkir fyrir ómetanlegan sveigjanleika i þessum efnum.
2. Sóttvarnir
Að gefnu tilefni er enn brýnt fyrir starfsfólki að viðhafa ítrustu smitvarnir við leik og störf. Rækilegur handþvottur, sprittun handa og yfirborðsflata, 2 metra reglan og grímunotkun eru öflugustu persónubundnu varnirnar. Þá er áríðandi að starfsfólk mæti ekki til vinnu hafi það einkenni sem samræmst geta COVID19 sýkingu.
3. Frekari frestun valaðgerða
Landspítali hefur í þriðju bylgju faraldursins dregið verulega úr valstarfsemi og mun gera það í enn meira mæli á næstu vikum í samræmi við væntanlega reglugerð heilbrigðisráðherra. Nánari útfærsla er í höndum stjórnenda eininga og forstöðumanna kjarna. Sjúklingar munu verða upplýstir þegar ákvarðanir liggja fyrir.
4. Skimanir
Skimanir vegna hópsýkingar á Landakoti munu halda áfram næstu daga, bæði meðal sjúklinga og starfsmanna, og á nokkrum starfsstöðvum Landspítala. Minnt er á gæðaskjal vegna hópskimana starfsfólks sem finna má í gæðahandbók.
5. Á Landspítala eru nú:
26 sjúklingar inniliggjandi vegna COVID19 – 115 alls frá upphafi þriðju bylgju faraldursins
- Þar af 3 á gjörgæslu og 1 í öndunarvél
989 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 177 börn
37 starfsmenn eru í einangrun vegna COVID19
282 starfsmenn eru í sóttkví (A: 77 B: 161 C:44)