Kæra starfsfólk!
Góðar kveðjur hafa borist í dag frá ráðgjafarnefnd Landspítala og forsetahjónunum (myndskeið) og ég vil byrja á að nota tækifærið hérna og þakka fyrir þær fyrir hönd alls starfsfólks. Hlýr hugur og samstaða þjóðar andspænis þessum vágesti skiptir okkur hérna á Landspítala öllu máli. Spítalinn og aðrar stofnanir íslenska heilbrigðiskerfisins eiga það sameiginlegt að hafa mánuðum saman starfað undir afar miklu álagi við fordæmalausar aðstæður, rétt eins og heimsbyggðin öll. Mannauðurinn á heilbrigðisstofnunum hefur valið sér að vinna í auga stormsins og er að vissu leyti það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessum faraldri. Það er gott að finna að flestir kunna að meta þau störf.
Hópsmit kom upp á Landakoti í lok síðustu viku. Sá atburður var reiðarslag fyrir sjúklinga, fjölskyldur þeirra, starfsmenn og starfsemina. Landspítali fór á neyðarstig, sem þýðir að öll athygli spítalans og þeirra sem hjálpað geta í heilbrigðiskerfinu beinist að forgangsverkefninu. Hvert er verkefnið? Það er þríþætt. Í fyrsta lagi að tryggja öryggi sjúklinga sem veikir eru af COVID-19 og að hægt sé að veita þeim viðunandi þjónustu. Í öðru lagi að ná utan um hópsmitið á Landakoti. Í þriðja lagi að tryggja aðkallandi þjónustu fyrir aðra sjúklinga spítalans.
Okkur miðar vel. Farið er að nást utan um hópsmitið, bæði hjá sjúklingum á Landakoti og starfsmönnum. Einstök vinna starfsfólks Landakots og annarra starfsmanna, sem og bakvarða skiptir þar sköpum. Ég tek hatt minn ofan fyrir því fólki því aðstæður allar hafa verið erfiðar. Jafnframt höfum við stutt við Reykjalund og Sólvelli á Eyrarbakka, þangað sem smit bárust, en þeir staðir hafa einnig sýnt einstakt baráttuþrek.
Við skoðum nú orsök þess að hópsmit kom upp á Landakoti. Það er ekki til að leita sökudólga heldur til að skilja og læra af reynslunni svo hægt sé að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig. Það verk er flókið og tímafrekt. Til að gæta ákveðinnar fjarlægðar höfum við sett í þetta fólk úr sýkingavörnum sem ekki kemur almennt að viðbragðinu. Í þessu felst að rekja ferla og ræða við yfir eitt hundrað manns. Þegar niðurstöður liggja fyrir verða þær kynntar og er áætlað að þær liggi fyrir eftir um tvær vikur.
Þegar blasa við þrír þættir sem hafa áhrif á að það að smit berst inn og dreifist víða. Í fyrsta lagi virðist um mjög smitandi afbrigði kórónaveirunnar að ræða. Í öðru lagi þá er húsnæði á Landakoti óhentugt. Þar eru margir sjúklingar um hvert salerni og baðaðstöðu og fólk er á fjölbýlum. Starfsmannaaðstaða, allt frá kaffistofum og vaktherbergjum yfir í búningsherbergi, er þröng og loftræstingu er ekki víða fyrir að fara. Í þriðja lagi þá er mönnun áskorun. Í vikunni var því haldið fram í fréttum að spítalanum hefðu orðið á þau mistök að hólfaskipta ekki starfseminni. Þetta voru ekki mistök enda hafði hólfaskipting verið könnuð. Mönnun leyfði hins vegar ekki slíkt. Þannig fara saman tvær stórar áskoranir, húsnæði og mönnun. Að viðhafa fullkomnar smitvarnir við svo knappar aðstæður er mjög krefjandi og ekkert má út af bera.
Landspítali starfar á neyðarstigi eftir að hafa verið lengi á hættustigi, raunar megnið af tímanum frá því að Covid-19-heimsfaraldurinn blossaði upp í mars. Það eru gríðarlega krefjandi og þungar aðstæður á vinnustað sem telur 6.000 manns og 2.000 nemendur að auki. Farsóttarþreyta sækir nú að landanum og að starfsfólki Landspítala þar á meðal. Það er ósk mín að við sem samfélag höldum þó áfram að þétta raðirnar og sýna samstöðu. Við höfum ákveðið sem samfélag að gæta varúðar, rekja smit og skima markvisst. Við þessar aðstæður geta komið upp hópsmit og smitbylgjurnar verða sömuleiðis væntanlega fleiri allt þar til faraldurinn verður brotinn á bak aftur. Þetta kallar á þolgæði.
Við erum öll í sama liði – gegn veirunni!
Páll Matthíasson