Kæra samstarfsfólk!
Staðan á Landspítala er þung en stöðug. Aðeins hefur fækkað í þeim hópi sem COVID-19 göngudeildin sinnir en fjölmargir sjúklingar með COVID-19 veikindi eru enn á legudeildum spítalans og nokkrir á gjörgæslu. Sjúklingar eru að útskrifast, bæði fólk sem lokið hefur COVID-19 meðferð og náð sér og svo aðrir sjúklingar en útskriftir eru þó áfram hægar. Vonir okkar standa til að ný hjúkrunarúrræði fyrir elsta aldurshópinn muni bæta stöðuna.
Það er ekki hægt að nota of sterk orð til að hæla starfsfólki Landakots og öðru starfsfólki spítalans sem hefur tekist á við COVID-19 faraldurinn. Árangurinn við að takast á við þetta hópsmit er einstakur – í raun kraftaverk unnið af starfsfólki spítalans. Þetta er erfið og hættuleg vinna, það er gríðarlegt álag á heimilislíf og ég veit að starfsfólk hefur oft til lengri tíma einangrað sig frá sínum nánustu. Þar á ofan kemur umfjöllun sem starfsfólk á Landakoti hefur á stundum upplifað sem ónærgætna og tekur nærri sér. Því er mikilvægt að hafa í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Starfsfólk Landspítala á Landakoti og annars staðar er ótrúlegur hópur af vönduðu fagfólki sem leggur nótt við nýtan dag til að vinna á sem bestan hátt við oft erfiðar aðstæður í gömlu húsnæði.
Einnig er vert að nefna að nær helmingur alls starfsfólks Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana vinnur utan klínískrar starfsemi og þar með utan sviðsljóssins í þessum faraldri. Þetta fólk er þó burðarstarfsfólk í rekstri okkar. Þarna á ég við starfsfólk í fjölbreyttri stoðþjónustu, til dæmis í eldhúsum, þrifum, upplýsingatækni, smíðum, innkaupum og aðföngum, móttöku, öryggi og flutningum. Ekki síðri hlutverkum gegna kempur í fjármálum, mannauði, menntun og þjálfun. Upptalningin er alls ekki tæmandi enda telur vinnustaðurinn 6.000 starfsmenn og 2.000 nemendur. Þetta fólk á mikið hrós skilið fyrir sitt framlag í faraldrinum enda hefur það sýnt einstakan dugnað, fórnfýsi og sveigjanleika. Án þessa lausnamiðaða fólks hefði vel heppnað viðbragð Íslands í faraldrinum verið ómögulegt. Án þessa hóps er starfsemi heilbrigðisstofnana óframkvæmanleg.
Öll starfsemi Landspítala litast af neyðarstigi spítalans vegna COVID-19 með miklu vinnuálagi samhliða tilheyrandi fækkun opinna rúma, samdrætti í valkvæðri þjónustu og margvíslegum takmörkunum í heimsóknum gesta. Landspítali vill þakka sjúklingum og aðstandendum þeirra sérstaklega þolinmæði og skilning andspænis þessum erfiðu aðstæðum. Nauðsynlegt hefur verið að fresta og færa til hundruðir aðgerða. Allar aðgerðirnar eru nauðsynlegar og frestun þeirra er óhjákvæmileg framlenging á þjáningum og heilsuleysi fólks með tilheyrandi álagi á fjölskyldur fólks og afleiðingar sem spanna allt frá atvinnu til félagslífs.
Þrátt fyrir tækniframfarir, aukna sjálfvirkni og öra framþróun í þjónustu þá er heilbrigðisþjónusta mannaflafrek starfsemi og handtökin kringum hvern sjúkling mörg hundruð dag hvern. Landspítala er nokkuð þröngt sniðinn stakkur og mikið lagt upp úr skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Það þýðir að vinnuálagið á mannskapinn okkar er á bestu stundum mikið og í heimsfaraldri sem þessum gríðarlegt. Við það verður ekki unað til lengdar. Til að draga úr álaginu, svo að hægt sé að færa starfsemi spítalans af neyðarstigi, þarf að draga úr farsóttinni í samfélaginu. Landspítali þarf á því að halda að almenningur allur haldi áfram að taka sóttvarnir gegn heimsfaraldrinum alvarlega, því engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Góða helgi!
Páll Matthíasson