Kæra samstarfsfólk!
Öflugt vísindastarf er háskólasjúkrahúsi eins og Landspítala súrefni inn í framtíðina og vísindastarf er ein meginstoða starfseminnar. Á þetta verður seint lögð of mikil áhersla og svo sannarlega stendur vilji spítalans til að efla það starf enn frekar þótt þrengingar í rekstrinum kunni að takmarka getuna. Í vikunni voru 11 ungum starfsmönnum Landspítala afhentir styrkir til klínískra rannsókna úr Vísindasjóði Landspítala. Þetta er alltaf ánægjuleg athöfn enda afar mikilvægt að ungt fólk sjái framtíð í vísindastarfi. Nýlega var einnig haldin metnaðarfull uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. COVID-19 hefur verið tilefni til lærdóms hér á Landspítala, hvort heldur við horfum til reynslu af umönnun COVID-sjúkra eða til grunns að þekkingarþróun í vísindum eins og glöggt má sjá af dagskrá hátíðarinnar. Meðal framlaga þar var kynning á rannsókn Elíasar Eyþórssonar og samstarfsmanna hér á Landspítala á tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með COVID-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins. Rannsóknin birtist í British Medical Journal í vikunni og er enn eitt dæmið um mikilvægi vísinda á Landspítala.
COVID-19 farsóttin er svo sannarlega ekki búin. Framundan eru krefjandi vikur og mánuðir. Okkur er öllum umhugað um öryggi sjúklinga, fjölskyldna, vina og okkar sjálfra og við leggjum okkur fram um að vanda umgengni alls staðar, hvar sem við komum, með sóttvarnir í forgrunni. Þó er það þannig að þessi smitandi veira leynist um samfélagið allt og jafnvel þeir sem passa sig mest og best smitast. Við eigum auðvitað öll einkalíf og sinnum öðru dags daglega en bara vinnunni, sem betur fer. En við verðum að fara varlega, sérstaklega nú á næstu vikum þegar búast má við meiri umgengni manna á milli. Farsóttanefnd Landspítala er vakin og sofin yfir velferð okkar allra í þessum faraldri og hefur tekið saman gátlista sem gott er fyrir stjórnendur og starfsmenn að hafa í handraðanum nú þegar við stígum skrefin varlega áfram. Í raun er þetta ekki svo flókið í sjálfu sér, eins og Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttökunnar í Fossvogi fer svo ákveðið og vel yfir í myndskeiði frá Almannavörnum.
Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku fékk Landspítali loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar á dögunum. Það er ekki síður ánægjulegt að nú 1. desember fékk Landspítali viðurkenningu samtakanna „Health Care Without Harm“ en þar fengum við silfurviðurkenningu fyrir að vera leiðandi í loftslagsmálum. Þó vissulega sé gott silfur gulli betra þá var ánægjulegt að fá sömuleiðis gullviðurkenningu samtakanna fyrir starf okkar við að minnka losun koltvíoxíðs og notkun endurnýtanlegrar orku. Ég má af þessu tilefni til með að segja ykkur frá viðurkenningu sem við höfum fengið frá Umhverfisstofnun vegna innleiðingar grænna skrefa í ríkisrekstri. Sjá myndskeiðið sem fylgir. Græn skref í ríkisrekstri er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsfólks. Það viljum við svo sannarlega.
Góða helgi, kæra samstarfsfólk!
Páll Matthíasson