Landspítali er 90 ára. Starfsemin hófst 20. desember 1930 þegar tekið var á móti fyrsta sjúklingnum.
Það var ekki mikið um tilstand þegar spítalastarfsemin hófst fyrir 90 árum. Í Morgunblaðinu 21. desember 1930 er sagt frá því að spítalinn hafi tekið til starfa daginn áður. Þetta er um sama leyti og Ríkisútvarpið er að hefja útsendingar og þannig eru þessar stofnanir jafnaldrar.
Frétt Morgunblaðsins 21. desember 1930:
„Við tilraunaútsendingar útvarpsins í fyrrakvöld var það tilkynnt að Landsspítalinn tæki til starfa á laugardag, þ.e. í gær.
Forstöðunefnd spítalans, eða starfrækslunefnd, mun eigi hafa gert aðrar ráðstafanir til þess en með útvarpi þessu, að láta almenning um það vita, að hin mikla og merkilega stofnun, sem þjóðin hefur beðið eftir með óþreyju, væri nú loks tilbúin til starfa.
En þeir, sem frjettu um, hvað til stæði, bjuggust við því, að nú myndi landsstjórnin efna til meiriháttar vígsluathafnar, því undanfarið hefir, sem kunnugt er, vart verið tekinn sundpollur til afnota, eða brú á þjóðvegi, svo þar væru ekki ráðherrar eða einhverjir fulltrúar þeirra, til þess að halda ræður, ef ske kynni, að af því flyti eitt eða tvö húrra fyrir landsstjórninni.
Um hádegi í gær átti Mgbl. tal við landlækni, og spurði hver viðbúnaður væri í tilefni af þessum merkilega viðburði í spítalasögu landsins.
- Það verður engin vígsluathöfn, segir landlæknir, - því að við sem eru í starfrækslunefnd viljum forðast allan átroðning.
Vitanlega verður landsspítalasjóðsnefndin, blaðamenn og aðrir, sem koma þessu máli við, að fá að skoða spítalann, við tækifæri. En sem sagt, við viljum sem minstan átroðning.
- En spítalinn tekur nú til starfa?
- Já, byrjað verður að taka á móti sjúklingum í dag. Við höfum tilkynnt þjóðinni það, í gegnum útvarpið.
- Og hverjir eru læknar spítalans?
- Þrír yfirlæknar.
- Hverjir?
- Eins og sjálfsagt er og verður – háskólakennararnir í helstu greinum læknisfræðinnar, skurðlækningum, meðalafræði og ljóslækningum – þeir Guðm. Thoroddsen, Jón Hjaltalín og Gunnl. Claessen.
- Fleiri læknar?
- Hver þessara þriggja eiga að hafa aðstoðarlækna, og verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir hafi góða framhaldsmentun – geti tekið við störfum yfirlæknanna, þegar á þarf að halda.
- Hverjir verða aðstoðarlæknar?
- Það er of snemt að segja frá því strax.
- En taka þeir ekki til starfa nú?
- Nei, ekki fyrr en um nýjár. Auk þess verða tveir fastir kandidatar við spítalann. Alls verða læknarnir því átta.
- Er spítalinn að öllu leyti tilbúinn?
- Nei, ýmislegt er ekki komið í lag ennþá, ljóslækningatækin eru t.d. ekki komin hingað enn. En sjúkrastofurnar eru allar tilbúnar og eins skurðlækningastofan. Jeg hefi altaf hugsað mjer, að landsspítalinn ætti að taka til starfa á þessu ári. En við marga örðugleika hefir verið að etja. Jeg var orðinn hræddur um, að þetta ætlaði ekki að takast. En úr ýmsum vanda hefir greiðst upp á síðkastið, svo þetta tókst fyrr en jeg gerði mjer von um um tíma.“
Saga Landspítala