Landspítali mun hefja bólusetningu starfsfólks vegna COVID-19 þriðjudaginn 29. desember 2020 að því tilskyldu að bóluefni berist til landsins á áætluðum tíma.
Hér eru upplýsingar um högun þessarar bólusetningar. Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér málið vandlega.
Forgangsröðun í bólusetningu
Samkvæmt forgangsröðun sóttvarnalæknis og reglugerð um forgangsröðun um bólusetningu við COVID-19 er starfsfólki bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og COVID-19 göngudeildar boðin bólusetning. Einnig verður starfsfólki sem tók aukavaktir á þessum deildum í þriðju bylgju COVID-19 boðið bólusetning.
770 fá bólusetningu í forgangshópi
Alls verður um 770 einstaklingum boðin bólusetning í fyrstu umferð sem er það sem Landspítali fær úthlutað að þessu sinni. Gert er ráð fyrir að ljúka bólusetningu þessa hóps 30. desember 2020. Þeir starfsmenn sem málið varðar mega búast við SMS-skilaboði í farsíma mánudaginn 28. desember.
Aðrir
Öðrum hópum starfsfólks verður boðin bólusetning þegar meira kemur af bóluefni til landsins og verður upplýst um þá högun og tímasetningar um leið og þær liggja fyrir.
Mætum á réttum tíma
Afar brýnt er að starfsmenn mæti í bólusetninguna á þeim tíma sem þeir eru boðaðir því að bóluefnið hefur skamman líftíma. Ekki verður hægt að geyma skammta fyrir þá starfsmenn sem af einhverjum ástæðum ekki komast á boðuðum tíma. Þeir sem alls ekki komast eða hafa ekki hug á að þiggja bólusetningu hafi samband í síma 543 1330 eftir að þeir fá SMS.
Skaftahlíð 24
Bólusetning verður í Skaftahlíð 24, skrifstofuhúsnæði Landspítala. Þetta er gert vegna þess hve viðkvæmt bóluefnið er, til að tryggja hámarks nýtingu þess og til að geta fylgt þeim sóttvarnarreglum sem nú eru í gildi.
Skipulag
Starfsmaður fær boð um bólusetningu úr bólusetningarkerfi sóttvarnarlæknis með SMS-skilaboðum í farsíma (athuga að uppfæra upplýsingar í Orra, ef þörf krefur). Starfsmaður mætir svo á þeim tíma sem er tilgreindur í boðinu í Skaftahlíð 24. Gengið er inn um aðalinngang suðurhúss upp við Miklubraut (gamla Tónabæ). Þar er farið niður í kjallara og eftir stuttum gangi inn í matsal þar sem bólusetning fer fram. Minnt er á algjöra grímuskyldu í öllum byggingum Landspítala.
30 mínútna ferli
Að lokinni bólusetningu þarf starfsmaður að bíða í 15 mínútur til að fylgjast með hvort ofnæmisviðbrögð vegna bólusetningarinnar geri vart við sig. Gera þarf ráð fyrir að bólusetningarferlið taki 20-30 mínútur. Eftir biðtímann fer starfsmaður út um dyr á matsal í Skaftahlíð.
Samgöngur
Þessa daga verður boðið upp á tíðar skutluferðir frá Fossvogi og Hringbraut til Skaftahlíðar. Starfsfólk sem kemur á bíl getur lagt á bílastæði við Skaftahlíð eða nýtt sér bílastæðið við Kennaraháskólann.
Bóluefni
Embætti landlæknis hefur látið útbúa vefsíðu með helstu upplýsingum um bóluefni vegna COVID-19. Starfsfólk er hvatt til að kynna sér þær upplýsingar sem þar eru.
Myndskeið
Stutt myndskeið, sem sýnir staðsetningu bólusetningarinnar í Skaftahlíð 24. Þess má geta að bak við grímuna í myndskeiðinu er Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hjá Landspítala og einn af stjórnendum verkefnisins.