Kæra samstarfsfólk!
Gleðilegt ár og takk fyrir frábær störf á því ári sem var að líða!
Í lok afar annasams árs hjá okkur á Landspítala var ánægjulegt að því lauk með því að bólusetning gegn COVID-19 hófst. Við bólusettum framlínustarfsfólk í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðuneytisins og gekk framkvæmdin vel. Það er hins vegar ljóst að við hefðum viljað bólusetja fleiri og hraðar en eins og alþjóð er kunnugt er enn sem komið er skortur á bóluefni. Ég ber þó þá von í brjósti að fljótlega rætist þar úr og að við þurfum aðeins að þreyja þorrann, en vonandi ekki góuna, hvað varðar bólusetningar þess starfsfólks sem mest er útsett fyrir smiti.
Þótt bóluefni sé farið að berast er mikilvægt og jafnvel mikilvægara en nokkru sinni að við virðum allar þær sóttvarnir sem gilda í samfélaginu og hér hjá okkur á spítalanum. Áfram eru takmarkanir í gildi á Landspítala og farsóttanefnd sendir reglulega frá sér áminningar og tilkynningar sem mikilvægt er að fylgjast vel með. Staðan á spítalanum hvað COVID-19 varðar er ágæt um þessar mundir og það sama gildir um samfélagið. Hins vegar eru blikur á lofti vegna ástandsins í nágrannalöndum og við megum því alls ekki draga úr árvekni okkar. Ánægjuleg hliðarverkun persónulegra sóttvarna sem langflestir viðhafa er lítil dreifing umgangspesta sem gjarnan minna rækilega á sig á þessum árstíma.
Síðustu daga hefur kveðið við nokkuð kunnuglegan tón hjá okkur, því miður. Mikið aðstreymi sjúklinga á bráðamóttökur spítalans hefur leitt til þess að ástandið hefur á stundum verið óviðunandi vegna fjölda þeirra sem þurfa innlögn á spítalann af bráðamóttöku, á sama tíma og of hægt gengur að útskrifa einstaklinga sem tilbúnir eru til þess. Þessi staða er alltaf óheppileg en sérstaklega í heimsfaraldri, eins og farsóttanefnd spítalans hefur bent framkvæmdastjórn á. Við höfum í ágætri samvinnu við heilbrigðisráðuneytið unnið að lausnum vegna þessa en öllum er ljóst að engar skyndilausnir eru ókannaðar. Á hverjum degi leggur hins vegar fjöldi starfsmanna sig alla fram um að láta hlutina ganga eins vel og unnt er við þröngan kost og fyrir það ber að þakka.
Góða helgi og farsælt komandi ár!
Páll Matthíasson