Niðurstöður úr Covid-19 skimun sjúklinga og starfsfólks blóð- og krabbameinslækningadeildar 11EG á Landspítala liggja fyrir og eru allar neikvæðar. Ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum á nýjan leik og er starfsemi hennar með venjubundnum hætti.
Nýinnlagður sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala 11EG fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20:00 í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. janúar 2021. Þegar í stað var gripið til ítrustu sóttvarnaaðgerða og deildinni lokað fyrir innlögnum. Um 30 sjúklingar og 20 starfsmenn voru síðan skimaðir snemma í morgun, fimmtudaginn 14. janúar.
Enn liggur ekki fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist en þó þykir ljóst að hann hafi verið með smit þegar við innlögn. Rakning stendur ennþá yfir. Sjúklingurinn var fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala A7 í Fossvogi strax í gærkvöldi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.
Smit, hvort heldur sjúklinga eða starfsfólks á deildum, eru alvarlegir atburðir í starfsemi Landspítala og viðbragðið alltaf umfangsmikið og útbreitt. Það viðbragð, öflugar sóttvarnir og umfangsmiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa góðu niðurstöðu.