Kæra samstarfsfólk!
Nýlega birtist í tímaritinu British Medical Journal grein um rannsókn nýdoktorsins og læknisins Elíasar Eyþórssonar og samstarfsfólks á Landspítala sem lýsir tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með COVID-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins á Íslandi. Rannsóknina vann Elías undir handleiðslu prófessoranna Runólfs Pálssonar og Martins Inga Sigurðssonar. Rannsókn Elíasar og félaga byggði á gögnum sem var safnað á COVID-göngudeild Landspítala. Niðurstöður rannsóknarinnar reyndust mjög áhugaverðar. Sem dæmi má nefna þá kom á daginn að þótt oft sé talað um Covid-19 sem öndunarfærasjúkdóm þá höfðu 48% samt einkenni frá meltingarfærum. Rannsóknin bætir við mikilvægri þekkingu um þróun einkenna hjá einstaklingum með COVID-19 og er til marks um hið einstaklega öfluga vísindastarf sem unnið er á Landspítala.
Sjá myndskeið fyrir neðan
Magnaðar reynslusögur á BUGL-ráðstefnu
Heimsfaraldurinn hefur eðlilega lokað á allt hefðbundið ráðstefnuhald en Landspítali hefur meðal annars brugðist við því með því að senda sínar ráðstefnur út með stafrænum hætti. Hin árlega BUGL-ráðstefna Landspítala var til dæmis haldin 29. janúar í beinni útsendingu og að þessu sinni var yfirskrift BUGL-ráðstefnunnar „Ég má vera öðruvísi: Margbreytileiki einhverfurófsins“. Heilbrigðisráðherra opnaði ráðstefnuna en á henni var fjallað um einhverfu frá ýmsum sjónarhornum og fluttar reynslusögur fólks með einhverfugreiningu. Um 800 manns sátu ráðstefnuna með stafrænum hætti yfir daginn auk þess sem um 13 þúsund manns til viðbótar hafa séð upptöku okkar frá ráðstefnunni. Ég hvet ykkur eindregið til að skoða upptökuna og horfa á þessar fróðlegu reynslusögur. Hafi María Carmela Torrini, Margrét Ósk Arnarsdóttir og Magnús Kári Norðdal kærar þakkir fyrir einstaklega gott framlag til ráðstefnunnar.
Dýrmæt yfirsýn á sjúkdóma í gæðagagnagrunnum
Klínískir gæðagagnagrunnar á Landspítala halda utan um lykilbreytur og þróun meðferðarferla og þessar breytur endurspegla viðfangsefni viðkomandi grunns. Gæðagagnagrunna er meðal annars hægt að nota til að öðlast dýrmæta yfirsýn á stöðuna hverju sinni í meðferð sjúkdóma og finna leiðir til umbóta. Á Landspítala eru tæplega 60 gæðagagnagrunnar af þessu tagi. Grunnarnir eru mikilvægt bakland fyrir fjölbreyttar vísindarannsóknir. Þeir innihalda aftur á móti gjarnan talsvert magn af persónugreinanlegum upplýsingum og því mikilvægt og sífelld vinna að tryggja að þær séu meðhöndlaðar með réttum og öruggum hætti og í takti við ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Sjá myndskeið fyrir neðan
Góða helgi!
Páll Matthíasson