Mánudaginn 8. febrúar 2021 taka í gildi tilslakanir vegna takmarkana sem verið hafa á Landspítala í tengslum við COVID-19:
1. Hópaskiptingum má hætta en mikilvægt er að einingar sem það á við um séu tilbúnar að fara hratt til baka ef faraldurinn fer aftur af stað í samfélaginu.
2. Heimsóknir fara aftur í sama farveg og kynnt var 31. ágúst 2020 en það var skömmu áður en þriðja bylgjan reið yfir. Farsóttanefnd hvetur til sveigjanleika þar sem sérstakar aðstæður eru uppi.
Heimsóknartími á legudeildum Landspítala er að öllu jöfnu virka daga á milli kl. 16:30 og 19:30 en frá 14:30 til19:30 um helgar og á almennum frídögum. Tímasetningar geta verið mismunandi milli deilda, mikilvægt er að kynna sér reglur viðkomandi deildar.
- Einn gestur í einu má heimsækja sjúkling (með fylgdarmanni ef nauðsyn krefur) í að hámarki eina klukkustund í einu.
- Gestur má ekki vera með einkenni sem samrýmast COVID-19, vera í einangrun eða sóttkví (sjá neðar). Þá er fólki eindregið ráðlagt frá því að koma í heimsókn ef það er með kvef, flensulík einkenni eða magakveisu.
- Ef aðstandandi óskar eftir öðru fyrirkomulagi á heimsókn en hér er tilgreint þá er honum bent á að hafa samband við deildarstjóra eða vaktstjóra viðkomandi deildar.
- Öllum gestum er skylt að bera viðurkennda grímu og spritta hendur eftir snertingu við fleti s.s. lyftuhnappa, hurðarhúna, handrið o.s.frv.
Sjá hér leiðbeiningar um örugga grímunotkun
Gestir sem hafa ferðast erlendis og/eða eru í sóttkví
- Aðstandendur sem hafa ferðast erlendis eru beðnir um að fresta heimsóknum á spítalann þar til 14 dagar eru liðnir frá komu til landsins eða niðurstaða úr tveimur sýnum með u.þ.b. fimm daga millibili er neikvæð.
- Við sérstakar aðstæður er heimilt að gera undantekningu og leyfa heimsókn aðstandenda áður en niðurstaða seinni sýnatöku er neikvæð. Slíkar heimsóknir þarf að skipuleggja fyrirfram með starfsfólki viðkomandi deildar.
3. Í fundarherbergum mega vera 20 manns í einu og allir með grímur. Fólki sem er í vinnusóttkví B eða C er óheimilt að sækja fundi og önnur sameiginleg rými.
4. Aðstandanda er heimilt að fylgja konu á fósturgreiningardeild en fylgja þarf reglum deildarinnar um framkvæmd þess.
5. Heimavinna má hætta með þeim takmörkunum að enn gildir 2ja metra regla í öllum vinnurýmum auk grímuskyldu.
6. Vikulegar skimanir inniliggjandi sjúklinga má stoppa í bili, þær taka mið af stöðu faraldursins í samfélaginu á hverjum tíma.
7. Skimanir sjúklinga sem flytjast á milli eininga halda áfram hjá þeim sjúklingum sem flytjast á Landakot, Vífilsstaði, hjúkrunarheimili og heim í hvers konar þjónustu sem veitt er af hinu opinbera.
Mikið er spurt um bólusetta. Enn hefur ekkert breyst varðandi skimanir bólusettra sjúklinga með undantekningum þó, samanber afléttingar hér að ofan.
Bólusettir starfsmenn þurfa áfram að fylgja öllum reglum bæði úti í samfélaginu og innan Landspítala, fylgja fjarlægðarmörkum og nota grímur. Það sama á við um bólusetta gesti og göngudeildarsjúklinga. Í gildi eru reglur um skimun og vinnusóttkví bólusettra starfsmanna sem koma yfir landamæri.
Ekkert breytist varðandi fjölda í matsölum og kaffistofum þar sem taka þarf niður grímur á meðan matast er.
Grunnreglur á Landspítala miðast við 20 manna hámark og algjöra grímuskyldu, óháð bólusetninga- eða mótefnastöðu einstaklinga. Meginástæða þessa er sú að enn er óljóst hvaða áhrif bóluefnið hefur á „berastig“ veirunnar í nefkoki þótt hún hindri ífarandi sýkingu þess sem er bólusettur. Hættan er því að bólusettir geti borið veiruna í aðra án þess að hafa einkenni sjálfir. Verið er að bíða eftir niðurstöðum úr stærri erlendum rannsóknum á þessu fyrirbæri ásamt því að safna gögnum í okkar umhverfi. Sama á við um þá sem hafa fengið COVID og myndað mótefni.