Kæra samstarfsfólk!
Nú þegar margir eru að jafna sig á þeim tíðindum að líklega verði ekki af rannsókn í samstarfi við Pfizer er ekki úr vegi að fagna þeim mikla árangri sem við höfum náð í baráttunni við COVID-19. Engir sjúklingar eru með virkt smit á spítalanum, enginn greindist með smit í gær og í eftirliti á göngudeildinni okkar eru færri en 30 einstaklingar. Bólusetningar með því bóluefni sem berst til landsins ganga vel, við höfum náð að bólusetja okkar hrumasta fólk og stóran hluta heilbrigðisstarfsfólks. Hér á Landspítala hafa rúmlega 40% starfsmanna lokið bólusetningu eða eru í því ferli. Þetta er auðvitað ekkert minna en stórkostlegt, nú þegar ekki einu sinni ár er liðið frá því að fyrsta smit greindist hér á landi. Það er frábær og eftirtektarverður árangur sem við ættum öll að fagna. Á sama tíma verðum við að muna, sérstaklega þegar slakað verður á sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu á næstunni, að persónubundnar sóttvarnir eru lykillinn. Ef þær bregðast þá getur faraldurinn farið á flug, sem við viljum alls ekki að gerist, hvað sem bólusetningum okkar viðkvæmustu hópa líður.
Út eru komnar Starfsemisupplýsingar Landspítala fyrir árið 2020 og þar fæst áhugaverð innsýn í starfsemina. Eins og við var að búast markast árið af áhrifum COVID-19 faraldursins eins og sjá má af því að í fyrsta sinn í sögu spítalans var spítalinn á neyðarstigi frá 25. október-12. nóvember, en meiri part ársins var síðan óvissustig í gildi. Þrjár bylgjur faraldursins hafa náð sér á strik og þurftu tæplega 300 einstaklingar innlögn hjá okkur og 17% þeirra stuðning á gjörgæslu. Að sjálfsögðu hafði þetta gríðarleg áhrif á rekstur spítalans, sem öllu jafna keyrir á yfir 100% nýtingu rýma, þótt viðmið sambærilegra sjúkrahúsa sé um 85%. COVID-19 göngudeildin okkar hefur skipt algjörum sköpum í baráttunni við faraldurinn og er líklega einsdæmi á heimsvísu. Deildin hefur tekið á móti veikum sjúklingum, sinnt skimunum og umfangsmiklu símaeftirliti allra sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi. Símtöl COVID-göngudeildarinnar, sem á síðasta ári voru um 35 þúsund, hafa án efa forðað mörgum frá innlögn og alveg ljóst af viðbrögðum þeirra sem þjónustuna hafa þegið að fyrir mörgum var símtalið líflínan í fásinni einangrunarinnar. Á sama tíma höfum við auðvitað sinnt öðrum bráðum verkefnum, þótt sjá megi í starfsemisupplýsingunum að verulega dró úr reglulegri starfsemi hjá okkur, s.s. að valaðgerðum fækkaði sem og komum á dag- og göngudeildir. Hins vegar fjölgaði fæðingum, öllum bráðaaðgerðum var sinnt og rannsóknarþjónusta óx mikið. Við getum því verið stolt af vinnu okkar og framlagi Landspítala til baráttunnar gegn faraldrinum.
Áhrif faraldursins eru gríðarleg í starfseminni og engin starfseining Landspítala hefur farið varhluta af því. Í upphafi ákváðum við að mikilvægt væri að skrásetja þessa sögu og fengum til þess samskiptadeildina okkar. Hún hefur framleitt gríðarlega mikið af góðu efni sem við eigum í sarpinum og höfum deilt með fjölmiðlum sem þess óska. Það var því sérstaklega ánægjulegt að í síðustu viku fékk ljósmyndarinn okkar, Þorkell Þorkelsson, verðskuldaða viðurkenningu fyrir mynd ársins og myndaröð ársins. Sjá hér nokkrar af myndunum hans Þorkels, mynd ársins er fyrir ofan pistlinn. Til hamingju!
Góða helgi!
Páll Matthíasson