Frá því að yfirstandandi skjálftahrina hófst hefur vandlega verið fylgst með áhrifum hennar á starfsemi og búnað á Landspítala. Skemmst er frá því að segja að hverfandi tjón hefur orðið af jarðskjálftum á Landspítala og starfsemi hvorki raskast né hefur þurft að fresta aðgerðum. Starfsfólk hefur yfirfarið nærumhverfi sjúklinga og hugar nú sérstaklega að öryggisþáttum kringum rúm sjúklinga og vinnustöðvar. Landspítali er bráðasjúkrahús og starfsemin undirbúin til að bregðast við almannavarnaástandi og náttúruvá. Áfram er fylgst grannt með framvindu mála.
Starfsfólk jafnt sem almenningur er hvatt til að kynna sér viðbragðsáætlun Landspítala sem nær til eitrana, farsótta, geislavár, hópslysa, rýmingar og bilana í klínískum tölvukerfum. Unnið er eftir verklagsreglum og gátlistum fyrir þessa atburðaflokka til að auðvelda starfsfólki Landspítala vinnu sína þegar mikið reynir á.
Viðbragðsstig áætlunarinnar eru þrjú: Óvissustig, hættustig og neyðarstig.
- Á óvissustigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni.
- Á hættustigi verður útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða.
- Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja Landspítala að fullu.
Ákvörðun um viðbragðsstig er tekin til hliðsjónar við stærð verkefnis fyrir Landspítala og ástands innan stofnunar. Spítalinn starfar því oft ekki á sama viðbragðsstigi og aðrir í almannavarnakerfinu. Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.