Sigurður Einarsson hefur verið ráðinn deildarstjóri fasteignaþjónustu Landspítala og hóf hann störf þann 1. febrúar 2021. Með ráðningu Sigurðar munu viðhaldsdeild og fasteignadeild sameinast í eina deild sem ber heitið fasteignaþjónusta.
Sigurður er með menntun á sviði tæknifræði (BS frá Tækniskóla Íslands) og verkfræði (MS frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn). Sigurður hefur um tuttugu ára reynslu af byggingar- og verktakaiðnaðinum á Íslandi og síðastliðinn áratug einnig í Noregi. Hann hefur starfað sem fulltrúi verkkaupa og verktaka á öllum stigum stórra og smárra framkvæmda við hönnunarstjórnun, verkefnastjórnun, samningagerð, byggingarstjórnun, eftirlit o.fl.
Sigurður hefur starfað hjá ýmsum fyrirtækjum svo sem Ístaki, Siglingastofnun, Hönnun, Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars, Rambøll, og WSP Norge. Hann hefur því víðtæka þekkingu og stjórnunarreynslu úr byggingargeiranum hérlendis og erlendis til að nýta í þeirri þróun og uppbyggingu sem framundan er í fasteignaþjónustu á Landspítala á næstu árum.