Samstarfsvettvangur Vísindaþorpsins í Vatnsmýri var formlega stofnaður 10. mars 2021. Borgarstjórinn í Reykjavík, rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, forstjóri Landspítala og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands skrifuðu undir samning þess efnis við stutta athöfn við Norræna húsið.
Vísindaþorpið verður markaðssett alþjóðlega undir heitinu Reykjavík Science City í samstarfi við Íslandsstofu og var samningur þess efnis einnig undirritaður. Gera á hugvit, nýsköpun og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og gera Ísland að eftirsóttum stað til rannsókna, þróunar og fjárfestinga. Meðal annars verður horft til tækifæra sem tengjast líftækni og heilsutengdri tækni auk þess sem laða á til landsins erlend fyrirtæki og sérfræðinga.
Fjölbreytt og lifandi byggð
Framtíðarsýn Vísindaþorpsins, sem samþykkt var árið 2013, er að í Vatnsmýri byggist upp fjölbreytt, hvetjandi, lifandi og þétt borgarbyggð. Hún á að samanstanda af háskólum, háskólasjúkrahúsi, þekkingarfyrirtækjum, vísindagörðum, frumkvöðlasetrum, íbúðum fyrir almenning og stúdenta, þjónustu, verslun, afþreyingu, menningu og grunn- og leikskólum í nánum tengslum við náttúru, útivist og almenningsrými.
Vatnsmýrin verður svæði þar sem fólk vill eiga heima, starfa og heimsækja. Framtíðarsýnin er að samgöngur verði greiðar innan svæðis, við alþjóðaflugvöll og höfuðborgarsvæðið. Þar gegnir alhliða samgöngumiðstöð á umferðarmiðstöðvarreit mikilvægu hlutverki í samgöngum innan Reykjavíkur og út um allt land.
Helstu uppbyggingarverkefnin
Á yfirlitsmynd hér að neðan má sjá helstu hluta svæðisins og hvernig Borgarlínan liggur um það. Á myndinni eru tilgreind 12 uppbyggingarverkefni sem tengjast Vísindaþorpinu í Vatnsmýrinni:
- Samgöngumiðstöð í Vatnsmýri verður meginskiptistöð almenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins, Borgarlínu og Strætó, auk þess að verða upphafs- og endastöð fluglestar og hópferðabifreiða út fyrir höfuðborgarsvæðið.
- Landspítalinn byggir upp nýjan meðferðarkjarna sem á að opna 2024, auk þess sem undirbúningur er hafinn að byggingu bílastæða- og þjónustuhúss.
- Með Miklubrautarstokk opnast nýir möguleikar á að skapa rólegt og manneskjulegt umhverfi á yfirborði með uppbyggingu. Hönnunarteymi vinna að nánari útfærslum Miklubrautarstokks. Fyrsti áfangi hans liggur frá Snorrabraut að Rauðarárstíg.
- Uppbygging íbúða á Hlíðarenda gengur vel og eftirspurn mikil. Þegar er flutt inn í margar íbúðir.
- Við Loftleiðir er fyrirhuguð uppbygging.
- Austan Nauthólsvegar rísa Háskólagarðar HR þar sem alls verða 390 íbúðir. Því til viðbótar er Reykjavíkurborg með lóð norðan við Háskólagarðana þar sem skipulag heimilar 65 íbúðir.
- Háskólinn í Reykjavík hefur á sinni lóð allnokkra uppbyggingarmöguleika, auk þess sem svigrúm er í nágrenninu fyrir nýsköpunarfyrirtæki og stofnanir við fyrirhugaða Borgarlínustöð.
- Ný brú yfir Fossvog er mikilvæg tenging svæðisins og mun Borgarlína fara um hana. Unnið er að undirbúningi verkefnisins.
- Nýtt hverfi við Skerjafjörð, Skerjabyggð, er í skipulagsferli og þar er gert ráð fyrir um 690 íbúðum í fyrsta deiliskipulagsáfanga og á fjórðungur þeirra að fara til óhagnaðardrifinna félaga í samræmi við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.
- Kraftmikil uppbygging á sviði tækni og vísinda hefur átt sér stað hjá Vísindagörðum HÍ en þar eru Gróska og Alvotech burðarásar.
- Á svæði Háskóla Íslands rísa nú nýir stúdentagarðar við Gamla garð og verið er að vinna að nýju rammaskipulagi fyrir háskólasvæðið.
- Borgarlínan mun liggja um svæðið eins og myndin sýnir, en hún verður mikilvæg samgönguæð að svæðinu sem og innan þess.
Öflugt samstarf
Það eru öflugir aðilar sem leggja saman krafta sína til uppbyggingar Vísindaþorpi í Vatnsmýri og það ríkir bjartsýni innan hópsins sem kom saman í Norræna húsinu.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri: „Það er mikill styrkur af því að borgin og þessar kjölfestustofnanir í þekkingarhagkerfinu deili framtíðarsýn um eflingu Vatnsmýrarinnar og þekkingarstarfsemi þar. Háskólarnir og Landspítalinn eru í lykilhlutverki við að nýta tækifærin í samstarfi sín á milli og við þekkingarfyrirtæki svæðisins og að draga nýja og spennandi aðila inn á svæðið til viðbótar. Með þessu nýja samstarfi getur Vatnsmýrin laðað að sér fjárfestingu, fyrirtæki og verkefni og eflst verulega sem miðja verðmætasköpunar á sviði hugvits, nýsköpunar og þekkingar til framtíðar. Íslandsstofa hefur það hlutverk að kynna kosti svæðisins og framtíðarsýn fyrir erlendum aðilum og draga þá að. Til að ná hámarksárangri þarf að huga að öllu umhverfinu, spennandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, grænum svæðum, góðri tengingu Borgarlínu og virkra samgangna. Við þurfum líka að tryggja góða leik- og grunnskóla og skemmtilega og áhugaverða borg. Og þetta ætlum við svo sannarlega að gera.“
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands: „Við í Háskóla Íslands fögnum samstarfi þessara aðila undir merkjum Vísindaþorps í Vatnsmýrinni. Við höfum í samstarfi við alþjóðleg fyrirtæki, borgaryfirvöld og stjórnvöld staðið fyrir kraftmikilli uppbyggingu í þágu atvinnulífs og samfélags á svæði Vísindagarða HÍ og Háskólans á undanförnum árum og munum áfram leggja okkar af mörkum þannig að Vísindaþorp dafni sem allra best í Vatnsmýrinni. Vísindastarf á Íslandi hefur stóreflst á undanförnum árum og hafa þeir aðilar sem bindast böndum hér í dag verið þar í fremstu röð. Með auknu samstarfi og alþjóðlegri markaðssetningu getum við náð enn meiri árangri og byggt á sterkum grunni.“
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala: „Framtíðarþróun Landspítala í jaðri Vísindaþorpsins í Vatnsmýri er löngu hafin og verkefnið gengur vel. Nýtt húsnæði verður reist þar fyrir spítalann á næstu árum til að uppfylla grunnkröfur samtímans til heilbrigðisþjónustu. Verkefnið felur í sér fjórar meginbyggingar; sjúkrahótelið, nýjan meðferðarkjarna, rannsóknarhús og sérstaka byggingu fyrir ýmsar tæknilausnir og skrifstofur. Lögð er rík áhersla á þarfir nemenda í heilbrigðisvísindum við uppbygginguna. Undirbúningur fyrir uppbygginguna hófst árið 2010, hefur staðið yfir sleitulítið síðan og byrjað er að steypa undirstöður meðferðarkjarnans. Landspítali er háskólasjúkrahús með 6.000 starfsmenn og 2.000 nemendur og gegnir mikilvægu hlutverki sem stærsta heilbrigðisstofnun landsins. Nálægð Landspítala við Vísindaþorpið og öflugt samstarf okkar við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir Landspítala lykilmáli. Vísindaþorpið eflir okkar umfangsmikla rannsóknastarf og kennslu og það mun ýta undir aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins.“
Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu: „Það er spennandi verkefni að markaðssetja Vatnsmýrina sem ákjósanlegan stað fyrir þekkingaruppbyggingu framtíðar. Víðs vegar á Norðurlöndunum, og víðar, hefur slík vinna skilað miklum árangri og tækifærum fyrir samfélagið. Það er eitt af markmiðum útflutningsstefnu stjórnvalda að stórauka hlut þekkingariðnaðarins í öflun útflutningstekna og það er ánægjulegt að sjá þá stefnu færða í verk með þessum hætti.”