Kæra samstarfsfólk!
Um liðna helgi kom upp smit COVID-19 hjá samstarfskonu okkar. Hún hafði í einu og öllu fylgt ítrustu persónulegu smitvörnum, farið í skimun og vandað umgengni sína sérstaklega í samræmi við leiðbeiningar og tilmæli farsóttanefndar. Hennar sérstaka varkárni virðist hafa orðið til þess að hið bráðsmitandi breska afbrigði dreifðist ekki á hennar viðkvæma vinnustað og raunar ekki heldur í miklu fjölmenni þar sem hún var tónleikagestur. Þetta er til fyrirmyndar og við þökkum henni og víðtækum aðgerðum vegna þessa smits það að vonandi hefur tekist að stöðva frekari útbreiðslu smita.
Þessi uppákoma leiðir hugann að bólusetningum starfsmanna Landspítala. Eins og vel er þekkt hefur bóluefni verið af skornum skammti og því hefur Landspítali fylgt leiðbeiningum sóttvarnalæknis og reglugerð heilbrigðisráðuneytis um notkun þess bóluefnis sem spítalanum hefur verið úthlutað. Nú hafa um 3.500 starfsmenn af liðlega 6.000 lokið eða fengið fyrri bólusetningu. Augljóslega eiga ekki allir starfsmenn í beinum samskiptum við sjúklinga og því var gleðilegt að geta boðað tæplega 2.000 starfsmenn til viðbótar í þessari viku í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Vonbrigðin, þegar ljóst var að fresta yrði bólusetningum í varúðarskyni, voru beinlínis áþreifanleg. Ljóst er að frestunin verður a.m.k. fram í næstu viku, vonandi skýrast málin sem fyrst en auðvitað þarf ávallt að gæta fyllsta öryggis. Það er ástæða til að nota tækifærið og hrósa okkar frábæra fólki sem skipulagt hefur og staðið að bólusetningnum, það hefur unnið afrek við mjög erfiðar aðstæður.
Framtíðarþróun Landspítala í jaðri Vísindaþorpsins í Vatnsmýri er löngu hafin og verkefnið gengur vel. Nálægð Landspítala við Vísindaþorpið og öflugt samstarf okkar við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir Landspítala lykilmáli. Vísindaþorpið eflir okkar umfangsmikla rannsóknarstarf og kennslu og það mun ýta undir aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins. Það var því sannkallað fagnaðarefni þegar Samstarfsvettvangur Vísindaþorpsins í Vatnsmýri var formlega stofnaður hinn 10. mars síðastliðinn. Vísindaþorpið verður markaðssett alþjóðlega undir heitinu Reykjavík Science City í samstarfi við Íslandsstofu. Gera á hugvit, nýsköpun og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og Ísland að eftirsóttum stað til rannsókna, þróunar og fjárfestinga. Meðal annars verður horft til tækifæra sem tengjast líftækni og heilsutengdri tækni auk þess sem laða á til landsins erlend fyrirtæki og sérfræðinga. Sannarlega spennandi verkefni!
Og talandi um Vísindaþorpið, þá langar mig til að nefna Auðnu tæknitorg, sem starfar þar í Grósku og aðstoðar háskóla, Landspítala og rannsóknarstofnanir landsins við að ná árangri í vísindalegri nýsköpun með greiningum og þjálfun. Samkeppnishæft atvinnulíf þarf aðgang að vísindum sem Auðna getur miðlað. Þau aðstoða við hugverkavernd og koma vísindum í vinnu í samfélaginu, ef þannig má að orði komast, í formi hugverka, hátækni sprotafyrirtækja og samstarfs við atvinnulífið. Það er ástæða til að hvetja það starfsfólk Landspítala sem sér möguleika á hagnýtingu verkefna sinna til að hafa samband og kynna sér þjónustu Auðnu.
Stjórnendur Landspítala, þar meðtaldir stjórnendur okkar 200 deilda, funda nú nokkuð þétt um sín helstu verkefni og fyrir sameinaðan heildarfund okkar fyrir skemmstu klippti samskiptadeildin okkar saman myndskeið sem sýna lausnamiðaða og léttleikandi vinnugleði fólks í hinum annars ótrúlega erfiða og átakasama heimsfaraldri Covid-19. Það má nefnilega ekki gleyma því að þrátt fyrir að faraldurinn hafi falið í sér erfiðar áskoranir og þungbær augnablik þá hefur hann líka kallað fram bestu hliðar okkar allra og þétt raðirnar hjá starfsfólki sem hefur starfað sem órofa heild á þessu tímabili.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Leit
Loka