Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni færði viðbragsstjórn Landspítala viðbúnaðarstig spítalans á hættustig vegna farsóttar COVID-19. Umtalsverðar breytingar eru gerðar á starfseminni, annars vegar vegna samkomutakmarkana sem sóttvarnaryfirvöld hafa sett, hins vegar tengt undirbúningi spítalans vegna mögulega aukins álags. Við gerum ekki ráð fyrir að draga úr þjónustu við sjúklinga en hún verður í vissum tilvikum veitt með öðrum hætti, m.a. á dag- og göngudeildum.
Það eru vissulega vonbrigði að faraldurinn sé í uppsveiflu á ný en við erum þó í nokkuð annarri stöðu nú en í fyrri bylgjum. Við erum tilbúin með viðbragðið og erum fljót að breyta starfsemi eftir þörfum. Ríflega helmingur starfsfólks hefur hafið eða lokið bólusetningu og einmitt þessa dagana er að hefjast bólusetning annarra starfsmanna og að henni lokinni munu yfir 90% starfsmanna hafa hafið eða lokið bólusetningarferli. Áfram gilda strangar sýkingavarnareglur innan spítalans fyrir alla starfsmenn, sjúklinga og gesti og gildir þá einu hvort fólk er bólusett eða ekki. Nú er páskaleyfi framundan hjá mörgum og það er ástæða til að brýna fyrir fólki að gæta sérstaklega að sér í ljósi stöðunnar.
Frá áramótum hefur Landspítali séð um skimanir fyrir krabbameini í brjóstum í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Í Reykjavík hefur skimunin farið fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð og hefur gengið vel. Nú í apríl verða hins vegar ánægjuleg tímamót í þjónustu við þennan hóp þegar öll starfsemi (að segulómun undanskilinni) verður sameinuð í nýrri og glæsilegri Brjóstamiðstöð Landspítala að Eiríksstöðum, Eiríksgötu 5. Miðstöðin er í raun göngudeild þar sem sameinast á einn stað bæði skimun fyrir krabbameini í brjóstum og þjónusta sem áður var veitt á deildum 10E og 11B af skurðlæknum, krabbameinslæknum og hjúkrunarfræðingum. Þetta er mikið framfaraskref sem ástæða er til að fagna.
Fleiri tímamótum má fagna núna snemma vors. Nýlega var á hjarta- og æðaþræðingastofu Landspítala 20 þúsundasta kransæðavíkkunin! Á deildinni er unnið mikið starf alla daga og hefur verið gert nánast sleitulaust frá 14. maí 1987. Á deildinni eru þrjú fullkomin þræðingartæki sem nýtast til flókinna inngripa auk kransæðaþræðinga og kransæðavíkkana svo sem ísetninga ósæðaloka, brennsluaðgerða vegna hjartsláttaróreglu og við ísetningu gangráða og bjargráða. Í þessari starfsemi sem og víða annars staðar eigum við trausta bakhjarla. Það er Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur heitinnar sem hefur í liðlega tvo áratugi verið helsta stoðin í fjármögnun á kaupum tækja til hjartalækninga og hjartaþræðinga á Landspítala. Jónína var eiginkona Pálma Jónssonar í Hagkaupi og allt frá stofnun sjóðsins hafa synir þeirra verið í sjóðsstjórninni og látið sig málefnið miklu skipta. Þetta er spítalanum og landsmönnum ómetanlegt.
Gleðilega páska!
Páll Matthíasson