Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni ákváðu viðbragðsstjórn og farsóttanefnd að færa spítalann af hættustigi á óvissustig vegna COVID-19. Staðan á Landspítala vegna viðbúnaðar við faraldrinum er góð. Enginn hefur legið inni vegna COVID-19 veikinda undanfarið og COVID-19 sjúklingur hefur ekki legið á gjörgæslu síðan í nóvember. Göngudeild COVID-19 hefur gengið vel að ná utan um þá sem smitast hafa þótt sjúklingum hafi fjölgað. Staðan á spítalanum endurspeglar stöðuna í samfélaginu, er í raun afrakstur samtakamáttar samfélagsins sem er staðráðið í að hafa betur í baráttunni við veiruna.
Nú mun breska afbrigðið vera mest áberandi meðal smitaðra og reynsla erlendis frá benti til þess að búast mætti við fleiri innlögnum hjá okkur en í fyrri bylgjum faraldursins. Blessunarlega hefur það ekki orðið og líklega er skýringanna að leita í ýmsum þáttum. Benda má á aldursdreifingu hinna smituðu, fleira yngra fólk sem ræður frekar við sýkinguna án spítalavistar. Það á hins vegar líka við erlendis þar sem breska afbrigðið ræður ríkjum en þar hefur ekki náðst utan um útbreiðsluna með smitrakingu og sóttvörnum, sem er lykilþáttur. Annað atriði sem kann að hjálpa er hækkandi bólusetningarhlutfall elstu aldurshópa. Enn ein skýring sem miklu kann að skipta er einstök nálgun okkar á Landspítala á þennan sjúkdóm með göngudeild COVID-19. Öllum sem greinast með smit á landinu (hvort heldur er innan lands eða á landamærum) er fylgt náið eftir með reglulegum símtölum lækna og hjúkrunarfræðinga. Með þeim hætti náum við að fylgjast vel með og erum fljót að átta okkur á ef hallar undan fæti. Þá getum við kallað sjúklinginn inn til meðferðar á göngudeildinni sjálfri og stutt hann til heimferðar samdægurs. Ef þörf reynist á innlögn er hún auðsótt og árangur meðferðar sem beitt er hefur verið góður. Þetta er einstakur ferill í meðferð COVID-19 smitaðra og líkur má leiða að því að skýringa á minni innlagnaþörf nú sem og í fyrri bylgjum faraldursins hér miðað við annars staðar sé meðal annars að leita hér.
Í gær kom út kynningarrit um Hringbrautarverkefnið, Nýr Landspítali. Það er afar ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni og hversu vel miðar nú í verkefninu. Við bíðum afskaplega spennt eftir nýjum meðferðarkjarna og rannsóknarhúsi, það hefur verið krefjandi en skemmtilegt að taka þátt í undirbúningnum. Það er mikilvægt að innviðir slíkrar risaframkvæmdar séu örugglega í samræmi við það besta sem þekkist í heilbrigðisþjónustu og því hefur náið samráð við starfsfólk spítalans verið afar mikilvægt. Hundruð starfsmanna hafa komið að verkefninu með einum eða öðrum hætti enda viljum við tryggja að spítalinn verði á heimsmælikvarða og uppfylli ítrustu kröfur. Umbylting verður á starfi okkar þegar öll bráðastarfsemi er komin undir eitt þak og rannsóknarþjónusta í næstu byggingu. Það verða hárréttu aðilarnir sem njóta góðs af því; sjúklingar spítalans.
Nýlega samþykkti heilbrigðisráðherra nýtt skipurit Landspítala. Ekki er um að ræða meiri háttar breytingar enda gengu slíkar í gegn haustið 2019. Það er mat mitt og framkvæmdastjórnar Landspítala að reynslan af þeim breytingum hafi verið góð. Skipurit á samt alltaf að endurspegla starfsemi viðkomandi stofnunar og því full ástæða til þess að endurskoða það ört, í síbreytilegri þjónustu. Þess vegna tóku nú 1. apríl nokkrar breytingar gildi. Hæst ber að á meðferðarsviði var bráðakjarni sameinaður lyflækningaþjónustu og heitir hinn nýi kjarni „lyflækninga- og bráðaþjónusta“. Samhliða flyst endurhæfingarþjónusta frá lyflækningaþjónustunni og verður rekin með öldrunarþjónustu. Nýr kjarni er „öldrunar- og endurhæfingarþjónusta. Ýmsar aðrar minni háttar breytingar voru gerðar sem má sjá á nýja skipuritinu.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Skipurit Landspítala 2021 - hefðbundin mynd og hringmynd