Vísindasjóður Landspítala hefur úthlutað verkefnastyrkjum til vísindamanna á Landspítala. Úthlutunin fór fram formlega þann 28. apríl 2021 á Vísindum á vordögum og hafði styrkþegum verið tilkynnt styrkveiting með rafrænum hætti nokkru áður. Afhending styrkja fór einnig fram rafrænt eins og í fyrra.
Vísindasjóði Landspítala bárust 85 umsóknir árið 2021 og var heildarfjárhæð umsókna rúmar 135 milljónir króna. Úthlutað var styrkjum til 74 verkefna úr sjóðnum að þessu sinni. Heildarfjárhæð úthlutaðra styrkja var tæplega 83 milljónir.
Vísindasjóður Landspítala veitir árlega allt að 100 milljónir króna í vísindastyrki til starfsmanna spítalans. Tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla vísindarannsóknir á spítalanum. Vísindaráð Landspítala ber ábyrgð á og hefur umsjón með faglegu mati á þeim umsóknum sem berast sjóðnum.