Kæra samstarfsfólk!
Á Landspítala kemur vorið með hátíðinni „Vísindi á vordögum“. Þetta er árlegur og sérstaklega mikilvægur viðburður á Landspítala enda fer eitt öflugasta vísindastarf á landinu fram á spítalanum, gjarnan í samvinnu við fleiri aðila úr vísindasamfélaginu. Farsóttin hefur vissulega haft áhrif á þessa uppskeruhátíð sem aðra viðburði. Þannig þurfti að fresta þessum vorboða fram á haust á síðasta ári. Vonandi boðar rétt tímasetning í ár bjartari tíma!
Það var sérstaklega ánægjulegt að veita Gunnari Guðmundssyni sérfræðingi í lungnalækningum titilinn Heiðursvísindamaður Landspítala 2021 en Gunnar hefur verið öflugur vísindamaður á spítalanum í áraraðir. Ekki var síður ánægjulegt að tilkynna um útnefningu ungs vísindamanns Landspítala 2021 en að þessu sinni hlotnaðist Elíasi Sæbirni Eyþórssyni sérnámslækni sá heiður. Samhliða þessu fékk Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir erfða- og sameindadeildar Landspítala, einkar veglegan styrk úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum. Sá sjóður er tilkominn að frumkvæði tveggja fyrrverandi yfirlækna á spítalanum, Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar. Þá voru úthlutanir vísindasjóðs Landspítala kynntar og þar rekur hvert metnaðarfulla verkefnið annað. Á ársskýrsluvef Vísinda á vordögum 2021, sem opnaður var á þessari uppskeruhátíð vísindastarfsins á Landspítala, eru dregnar saman ítarlegar upplýsingar í texta, tölum, myndum og myndskeiðum um vísindastarfið á spítalanum sem er vel þess virði að líta á.
Ástæða er til að viðra áhyggjur af vísindastarfi í lífvísindum á Íslandi almennt og á Landspítala sérstaklega. Vakin hefur verið athygli á umhverfi vísindastarfs á heilbrigðissviði á Íslandi; umsóknum um styrki fækkar og síðustu tæplega 20 ár hefur tilvitnanastuðull greina frá vísindamönnum á Landspítala lækkað ár frá ári. Hér kemur ýmislegt til sem skýra má stöðuna en þegar á heildina litið er staðan einfaldlega sú að við uppskerum eins og við sáum. Fjárframlag til vísindastarfs á Landspítala er langt undir því sem viðunandi er en eðlilegt væri að miða við að að minnsta kosti 3% rekstrarfjárframlaga til spítalans rynnu í rannsóknir. Því er ekki að heilsa og spítalinn er ekki í færum til að skera niður þjónustu við sjúklinga til að auka fé til vísinda. Fé til vísinda þarf að geirnegla sem hlutfall af rekstrartekjum, fjármagna sérstaklega og tryggja þannig að ekki þurfi að velja á milli þess að bjarga sjúklingum dagsins í dag og þess að undirbyggja lækningar framtíðar með vísindastarfi. Minna má á að forsenda þeirra velmegunar og heilbrigðis sem við búum við í þessu samfélagi eru vísindarannsóknir og hagnýting þeirra. Aðstæður í heiminum eru og verða með þeim hætti að fátt getur hjálpað mannkyni áfram betur en einmitt þróun í vísindum – það stendur enn sem Jónas Hallgrímsson kvað til nafna míns Gaimard;
Vísindin efla alla dáð
Orkuna styrkja, viljan hvessa
Vonina glæða, hugann hressa
Farsældum vefja lýð og láð.
Vorboðarnir eru fleiri! Í næstu viku fer fram ársfundur spítalans með afskaplega fjölbreyttri dagskrá og yfirskriftinni „Samvinna á farsóttartímum“. Fundurinn verður í beinu streymi þann 7. maí og hefst kl. 14:00. Í vikunni þar á eftir höldum við hátíðlega Viku hjúkrunar með fjölbreyttri dagskrá og loks er komið að Umbótaviku 25.-28. maí. Markmið Umbótavikunnar er að hvetja starfsfólk áfram í umbótastarfi og veita hvert öðru innblástur um leið og við fræðumst um árangursrík verkefni á þessu sviði. Þema vikunnar að þessu sinni verður „Byggjum brýr“ með skírskotun til þess sem við erum að gera í umbótastarfi.
Á sérstakri ráðstefnu Umbótavikunnar þann 27. maí verður tilkynnt um Umbótakempu Landspítala 2021 og Umbótateymi Landspítala 2021, samkvæmt tilnefningum starfsfólks. Þetta er spennandi nýbreytni hjá okkur. Einstaklingar og hópar, sem skara fram úr í umbótastarfi hafa það alltaf að leiðarljósi að gera betur, hugsa út fyrir kassann, þora að tala um og framkvæma hluti til að efla umbætur og minnka sóun í breiðu samhengi, eru opnir fyrir nýjungum og reiðubúnir að endurskoða eigið verklag ef hægt er að gera betur. Ég vil hvetja starfsfólk til að taka þátt og senda fyrir 12. maí tilnefningar á netfangið umbotaradstefna@landspitali.is með stuttum rökstuðningi.
Góða helgi!
Páll Matthíasson