Ávarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala
7. maí 2021
Góðir ársfundargestir, stjórnendur og annað starfsfólk Landspítala!
Yfirskrift ársfundar Landspítala nú, „Samvinna á farsóttartímum“, er lýsandi fyrir þau verkefni sem mætt hafa starfsfólki spítalans á liðnu starfsári. Farsóttin hefur yfirgnæft allt, gert nánast fordæmalausar kröfur til stjórnenda og starfsfólks heilbrigðiskerfisins og ekki hvað síst starfsfólks Landspítala.
Starfsfólk Landspítala hefur sýnt ótrúlega færni í samvinnu. Einstakar heilbrigðisstéttir vinna saman sem ein heild í umönnun sjúklinga við aðstæður sem eru einstakar, þó ekki sé nema fyrir þann varnarútbúnað sem nauðsynlegt hefur verið að klæðast. Þrátt fyrir þá fjarlægð sem sá útbúnaður skapar frá sjúklingum hefur fagfólkið náð að veita þá umhyggju og hlýju sem er svo mikilvæg í bataferli sjúklinga. Um það vitna margar sögur þeirra sem notið hafa þjónustunnar og aðstandenda þeirra.
Smiðir hafa breytt og byggt húsnæði með leifturhraði, starfsmenn í ræstingu endurskipulagt sín störf og uppfyllt nýjar og meiri kröfur, starfsmenn á rannsóknarstofum þróað nýjar lausnir og svona mætti áfram telja. Allir hafa lagst á eitt um að hafa betur í baráttunni við ósýnilega óvininn, sem heimsbyggðin hefur nú glímt við í hartnær eitt og hálft ár. Teymisvinna hefur þannig í raun öðlast dýpri merkingu.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ykkur öllum, starfsmönnum og stjórnendum Landspítala fyrir þá framsýni, útsjónarsemi, sveigjanleika, úthald og samvinnu sem þið hafið sýnt á liðnu starfsári. Þið hafið verið heilbrigðiskerfinu til mikils sóma. Kærar þakkir.
Góðir ársfundargestir!
Þó ljóst megi vera að glíma okkar við Covid mun standa fram eftir ári megum við ekki gleyma þeim verkefnum öðrum sem vinna þarf brautargengi.
Á ársfundi Landspítala fyrir ári síðan ræddi ég aðeins um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og það leiðarljós sem hún hefur verið okkur í skipulagningu heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstefnan er ekki síst mikilvæg fyrir skýra skiptingu heilbrigðisþjónustunnar í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu.
Í framhaldi af samhljóða samþykkt heilbrigðisstefnu á Alþingi var ráðist í endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu frá 2007 þar sem skipulag heilbrigðisþjónustunnar miðaðist við almenna og sérhæfða þjónustu. Mikilvægt var að samræma lög um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu. Endurskoðuð og breytt lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi í júlí 2020. Þær skilgreiningar á hlutverki Landspítala í heilbrigðisþjónustunni sem áður voru í lögunum hafa nú að mestu verið færðar í reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa sem gefin var út í nóvember 2020.
Hlutverki, starfsemi og þjónustu Landspítala er lýst í sjötta kafla reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að Landspítali skuli veita annars og þriðja stigs þjónustu. Einnig að Landspítali skuli „þróa samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir til að tryggja að notendur fái heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi“.
Samvinna Landspítala við aðrar heilbrigðisstofnanir er lykilatriði í því að unnt sé að nýta til fulls þá sérhæfðu þekkingu sem starfsmenn spítalans búa yfir - og til að tryggja að Landspítali geti veitt þeim þjónustu sem glíma við svo flókinn heilsufarsvanda að við honum verður ekki brugðist annars staðar.
Heilbrigðisráðuneytið hefur í góðri samvinnu við aðra þjónustuveitendur, á vegum ríkis, sveitarfélaga, sjálfseignastofnana og einkaaðila, unnið að því að tryggja sem best að Landspítali geti sinnt sínum megin verkefnum. Það hefur verið gert með því að styrkja fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu.
Á síðasta starfsári Landspítala rataði oft í fréttir langur biðtími eftir þjónustu á bráðamóttöku og það sem kallað hefur verið fráflæðivandi eða útskriftarvandi Landspítala. Þá er alla jafna vísað til þess að svo og svo margir tugir aldraðra einstaklinga liggi á Landspítala eftir að meðferð þeirra er lokið, sökum þess að önnur úrræði skortir. Það leiðir til þess að aðrir þeir sem á þjónustu Landspítala þurfa að halda - þarfnast þriðja stigs þjónustu – bíða lengur en æskilegt er. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og þjónustuveitenda á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar að bregðast við þessum vanda.
Ég vil nefna hér nokkur dæmi um aukna og nýja þjónustu sem sérstaklega miðar að því að tryggja öldruðum einstaklingum þjónustu á viðeigandi þjónustustigi:
- Í desember sl. var undirritaður nýr samningur við Reykjavíkurborg um heimahjúkrun í Reykjavík. Í samningnum er lögð áhersla á að efla getu heimahjúkrunar Reykjavíkur til að nýta velferðartækni í auknum mæli samhliða því að fjölga vitjunum, auka sérhæfingu og veita þverfaglega heilbrigðisþjónustu í meira mæli til fólks í heimahúsum. Árlegur kostnaður við samninginn nemur um tveimur milljörðum króna.
- Rekstur öldrunarteymis Reykjavíkurborgar var einnig styrktur, en með þjónustu þess teymis er ekki hvað síst stefnt að því að fækka sjúkrahússinnlögnum og það geti einnig verið liður í að vinna gegn þeim vanda sem oft skapast á bráðamóttöku Landspítala.
- Í mars sl. undirritaði ég samning við Hafnarfjarðarbæ um endurgerð húsnæðis gamla Sólvangs þar sem komið verður á fót nýrri tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða.
Þeirri þjónustu er ætlað að styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu með skammtíma innlögnum í létta endurhæfingu þar sem stuðningsþarfir verða metnar og komið í farveg. Þannig er þeim aldraða gert betur kleift að búa lengur heima og taka þátt í samfélaginu. Árlega verður hægt að veita um 250 einstaklingum þessa þjónustu.
- Í nýliðnum mánuði ákvað ég að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja um 25 ný endurhæfingarrými fyrir aldraða, með áherslu á þjónustu við þá sem slasast hafa vegna neysluvanda.
- Síðast en ekki síst vil ég nefna það stóra skref sem stigið var í lok árs 2020 þegar samþykkt var að fjármagna allt að 100 ný hjúkrunarrými hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er ætlað að brúa það bil sem myndast hefur í opnum nýrra hjúkrunarrýma þar. Einnig og ekki síður að vinna á útskriftarvanda Landspítala, að tryggja flæði og að aldraðir einstaklingar sem lokið hafa meðferð á Landspítala fái þjónustu á réttu þjónustustigi. Sjúkratryggingar Íslands vinna nú að kaupum á þessari þjónustu og standa vonir til þess að nýtt heimili opni síðar á þessu ári.
Hér á Íslandi, eins og um heiminn allan, verður en af stóru áskorunum framtíðarinnar að veita öldruðum viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað fagnaðarefni að fólk lifi lengur en áður, en jafnframt felst í því áskorun. Þó aldraðir eigi sannarlega rétt á sambærilegri þjónustu og aðrir er ekki síst mikilvægt að tryggja þeim stækkandi hópi þjónustu á réttu þjónustustigi.
Nýverið gerði ég samning við Halldór S. Guðmundsson um að hann ynni drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða. Við gerð þeirrar stefnu skal sérstaklega litið til heildarskipulags í þjónustu við aldraða og samþættingu hennar auk þverfaglegs samstarfs innan heilbrigðisþjónustunnar og félagslegrar þjónustu. Drög að stefnu munu liggja fyrir um miðjan júní og verða þá sett í samráðsgátt stjórnvalda.
Stefnudrögin verða síðan lögð fyrir heilbrigðisþing sem ég hyggst boða til þann 20. ágúst.
Góðir gestir!
Nú er sumarið handan við hornið með birtu og yl og fyrirheit um að innan tíðar höfum við sigur í baráttunni við faraldurinn.
Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala ganga vel og þessa dagana er verið að bjóða út kaup á ráðgjöf til að kortleggja þjónustu Landspítala til ársins 2040. Við getum því litið björtum augum til framtíðar þó verkefni Landspítala og heilbrigðisþjónustunnar allrar verði áfram krefjandi og krefjist góðrar samvinnu allra þeirra sem að koma.
Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til ykkar allra, starfsmanna Landspítalans, fyrir ykkar góðu störf, fagmennsku og seiglu á þessu krefjandi starfsári sem nú er liðið.
Megi ykkur vel farnast í ykkar mikilvægu störfum.
Takk fyrir!
(Talað orð gildir)