Kæra samstarfsfólk!
Fagráð Landspítala
Við breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu (nr. 40/2007) síðasta sumar kom inn ákvæði um fagráð heilbrigðisstétta á hverri heilbrigðisstofnun. Í framhaldinu kom reglugerð heilbrigðisráðherra sem nánar skýrði málið í nóvember síðastliðnum (nr. 1111/2020). Það tók nokkurn tíma að ákveða hvernig best væri að setja ramma fagráðsins og vann ég þá vinnu með öflugum fulltrúum nokkurra fagstétta. Niðurstaðan var sú að fá tilnefningu um fulltrúa frá þremur fjölmennustu stéttum spítalans; hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraliðum. Síðan var sett upp bakland hópa fagstétta með svipaðan bakgrunn (eftir því sem hægt var) og tilnefndur fulltrúi frá „rannsóknarstéttum“, „þjálfunarstéttum“ og „viðtalsstéttum“. Að lokum skipaði ég einn fulltrúa og leitaðist þar við að gæta jafnræðis á milli fagstétta og líta jafnframt til kynjahlutfalls og þess að stærstu starfsstöðvar spítalans hefðu fulltrúa í ráðinu. Tel ég að vel hafi tekist til við skipan ráðsins.
Frá 1. maí síðastliðnum er því starfandi þverfaglegt fagráð við stofnunina, skipað öflugu fólki, sjá erindisbréf. Ráðið hefur sett sér starfsreglur sem ég hef staðfest og hefur valið sér til eins árs formann, Mörtu Jóns Hjördísardóttur hjúkrunarfræðing og varaformann, Jakobínu Rut Daníelsdóttur sjúkraliða.
Dagur hjúkrunarfræðinga
Þann 12. maí síðastliðinn, á fæðingardegi Florence Nightengale, var hinn árlegi dagur hjúkrunarfræðinga. Ég hef oft sagt og endurtek það nú að hjúkrunarfræðingar eru hryggsúlan og burðarvirkið í hverju sjúkrahúsi. Árið 2020 var helgað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum en í raun má segja að þá eins og áður hafi hjúkrunarfræðingar og ljósmæður helgað sig verkefnum ársins af gríðarlegum fítons krafti í heimsfaraldrinum. Það verður aldrei fullþakkað. Segja má að listamaðurinn Banksy hafi náð að fanga þetta ágætlega á mynd sem komið var fyrir á sjúkrahúsi í Southhampton. Vissulega er klæðnaður hjúkrunarfræðingsins heldur gamaldags og maður sér hvorki konur eða karla í stétt hjúkrunarfræðinga sérstaklega fyrir sér í þessum útbúnaði – en skilaboðin eru skýr.
Flókin mál í fjölmiðlum
Landspítali er oft í fréttum. Reyndar birtast á sjöunda þúsund fréttir um Landspítala í íslenskum fjölmiðlum á ári. Oft eru þetta ánægjulegar fréttir úr starfseminni, af nýjungum, öflugu starfsfólki eða einhverjum verkefnum sem spítalinn hefur sinnt. Stöku sinnum leitar fólk hins vegar í fjölmiðla vegna þess að það hefur áhyggjur af þjónustu sem það, aðstandendur þess eða skjólstæðingar hafa fengið. Það er réttur fólks og spítalinn gerir ekki athugasemdir við slíkt. Landspítali er þjónustustofnun, ekki hafin yfir gagnrýni og við viljum alltaf skilja hana og nota ábendingar til að gera betur. Hins vegar er stundum um flókin mál að ræða, sem erfitt er að útskýra öðru vísi en að rjúfa trúnað við sjúklinga, sem okkur er að sjálfsögðu óheimilt. Því veljum við oftast að svara ekki einstökum málum og þurfum jafnvel stundum að fara varlega í að gefa almenn svör, tilvísanir í verklagsreglur o.s.frv. fyrr en nokkur tími er liðinn frá umfjöllun, þar sem slíkt gæti gefið vísbendingar um það hver í hlut á. Hins vegar tökum við öllum ábendingum og kvörtunum alvarlega og höfum oft unnið að lausn mála sem upp koma lengi - en þau geta þá verið afar flókin. Mikilvægt er að minna á að fólk á skýlausan rétt á að beina erindum til Embættis landlæknis sem er óháður úttektar- og eftirlitsaðili í faglegum málum og að ekki er óeðlilegt að slík erindi séu send samhliða athugasemdum til spítalans.
Sumarlokanir
Framundan er sumarið og þá drögum við nokkuð úr starfseminni að venju. Að þessu sinni verða nokkuð færri rúm opin yfir sumartímann en á Landspítala eru öllu jafna opin um 650 rúm allan sólarhringinn allt árið um kring.
Að meðaltali verða tæplega 90% allra rúma opin á tímabilinu 24. maí til 29. ágúst en ríflega 91% rúma voru opin að meðaltali á sama tímabili sumarið 2020. Að meðaltali verða því 12 færri rúm opin þessa mánuði en sumarið 2020.
Hefðbundin fækkun opinna sjúkrarýma mun hefjast um miðjan júní og standa fram í miðjan ágúst og verður mesta fækkunin í júlí og fram yfir verslunarmannahelgi eins og undan farin ár.
Góða helgi!
Páll Matthíasson