Kæra samstarfsfólk!
Að vanda er maímánuður annasamur á Landspítala, einkum í reglulegri starfsemi en maí er líka mánuður hinna mörgu viðburða. Við höfum þegar fagnað viku hjúkrunar, Vísindum á vordögum og haldið vel heppnaðan ársfund svo eitthvað sé nefnt. Og nú er komið að umbótaviku Landspítala sem stendur næstu viku undir heitinu „Byggjum brýr“. Markmið umbótavikunnar er að hvetja starfsfólk í umbótastarfi, veita innblástur og gera vel heppnuðum verkefnum rækileg skil. Að vanda er afar metnaðarfull dagskrá alla vikuna og má þar m.a. nefna erindi og vinnustofur um sjúklingafræðslu, viðtöl og hlaðvörp um þjónustu við aldraða og öryggi sjúklinga. Hápunkturinn er umbótaráðstefna sem haldin verður þann 27. maí og verður streymt á facebook-síðu Landspítala. Dagskráin er afar fjölbreytt og má þar m.a. nefna erindi dr. Leandro Herrero; How to make change happen (and how to skilfully kill it). 10 inconvenient truths. Einnig verða umbótakempu og umbótateymi ársins veittar viðurkenningar en þar er á ferð nýbreytni! Tilnefningar hafa borist frá starfsfólki um einstaklinga og hópa sem skarað hafa fram úr í umbótastarfi á spítalanum. Þetta eru kempur sem alltaf hafa að leiðarljósi að gera betur, hugsa út fyrir kassann, þora að tala um og framkvæma líka!
Talandi um umbætur. Það er ýmislegt að gerast á Landspítala sem bætir og eflir þjónustu við sjúklinga og bætir starfsumhverfi starfsfólks. Á dögunum var ný innskriftamiðstöð svæfingar á Landspítala opnuð á göngudeild 10E við Hringbraut. Þetta er mikið framfaraskref í þjónustunni. Undirbúningur skurðsjúklinga fyrir svæfingu fór fram í Fossvogi og við Hringbraut og sinntu svæfingahjúkrunarfræðingar og svæfingalæknar þjónustunni en nú hefur starfsemin færst á einn stað. Samstarf við aðra fagaðila sem þegar starfa við Hringbraut við undirbúning sjúklinga eflist enn frekar. Nú gefast tækifæri með breyttum áherslum í teymisvinnu og bættum verkferlum til að bæta enn þjónustuna og hér er um að ræða enn eitt skrefið í átt að nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut.
Nú eru sumarstarfsmenn farnir að tínast inn til afleysinga á spítalanum. Við vitum að sumarið kann að verða nokkur áskorun, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna, og í síðustu viku kynntum við sumarstarfsemina þar sem gert er ráð fyrir örlítið meiri samdrætti í starfsemi deilda en síðasta sumar. Fjölmargir þessara sumarafleysingastarfsmanna eru alvanir og hafa jafnvel verið í hlutastörfum yfir veturinn, aðrir eru að koma í fyrsta sinn til okkar. Þessi hópur er okkur afskaplega dýrmætur. Ekki einasta tryggir hann að við hin komumst í langþráð og verðskuldað frí heldur er þarna rjóminn af framtíðarstarfsmönnum spítalans. Það er því afskaplega mikilvægt að taka vel á móti þessu fólki, sýna því umburðarlyndi og veita viðeigandi leiðsögn. Ekki er ólíklegt að einmitt þetta fólk muni sinna okkur sjálfum á einhverjum tímapunkti þó vonandi mikið síðar verði! Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á Landspítala.
Góða helgi!
Páll Matthíasson