Lausnarmótið 2021 verður kynnt á Nýsköpunarvikunni 2. júní 2021 og þá verður jafnframt opnað fyrir umsóknir. Valin teymi munu svo spreyta sig á áskorunum í september þegar verkefnavinnan sjálf fer fram.
Lausnarmót er nýstárleg aðferð við að laða fram byltingarkenndar nýjungar í rafrænum lausnum handa heilbrigðiskerfinu og fjármálageiranum. Mótið stendur yfir í fjórar vikur þar sem þátttakendum gefst kostur á að þróa áfram lausnir við áskorunum samfélagsins með hjálp mentora frá Embætti landlæknis, Landspítala, Heilsugæslunni, Arion banka og Háskóla Íslands.
Í kjölfar Covid-19 hefur það sýnt sig að nýsköpun og stafræn þróun er gríðarlega mikilvæg. Heilsutæknihluti lausnarmótsins snýr að því að ýta undir nýsköpun innan heilbrigðiskerfisins og efla almenning til þátttöku í að leysa vandamál morgundagsins. Fjármálaheimurinn hefur heldur ekki farið varhluta af umbreytingum á síðustu árum, sífellt háværari krafa er um að fjármálafyrirtæki tileinki sér fjártækni til að auka skilvirkni og bæta þjónustu við viðskiptavini sína.
Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis: „Til að samfélagið okkar geti viðhaldið núverandi þjónustustigi í heilbrigðiskerfinu er okkur nauðsynlegt að innleiða rafrænar lausnir þar sem notendur þjónustu geta þjónustað sig sjálfir að meira mæli en í dag. Okkur finnst áhugavert að prófa aðferðir nýsköpunar og sjá hvort nýjar lausnir munu líta dagsins ljós á Lausnarmótinu þjóðfélaginu til hagsbóta. Það er von okkar að þar geti komið fram lausnir sem hægt verður að innleiða í starfsemi heilbrigðisstofnanna í framhaldinu.“
Meðal þeirra áskorana sem verða lagðar fram fyrir þátttakendur eru:
● Biðlisti á Heilsugæslu og næsti lausi tími
● Áfangar í þroska ung og smábarna
● Rafrænn stuðningur fyrir fólk með átraskanir
● Bið á biðstofum Landspítala
● Persónu og notendamiðuð rafræn lausn
● Vegvísir notenda um húsnæði Landpítala
● Raunstaða sjúklings í skurðferli fyrir aðstandendur
● Gervigreind til að reikna út líkur á afbókun tíma
● Rafræn lausn fyrir skjólstæðinga og sálfræðinga
● Rafrænt krísuplan fyrir sjálfsvígshugsanir
Tímalína Lausnarmótsins 2021:
● 2. júní - Verkefnið kynnt og opnað fyrir umsóknir
● 29. júlí - Kynningarfundur fyrir umsækjendur
● 20. ágúst - Teymi valin og tilkynnt
● 6. september - Lausnarmótið hefst
● 1. október - Lausnarmótinu lokið og samtal um næstu skref milli eigenda áskorana og teyma
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á síðum Lausnarmótsins
Kynningarfundurinn á Zoom 2. júní
Lausnarmótið 2021 - efnissíða
Lausnarmótið 2021 - skráningarsíða