Lionsklúbbur Kópavogs afhenti Rjóðri Landspítala endurgerðan sal í Iðjuhúsinu í Kópavogi við hátíðlega athöfn 15. júní 2020. Um er að ræða tómstunda- og hreyfisal skjólstæðinga Rjóðurs. Lionsmenn lögðu 2.000 vinnustundir í endurbætur Iðjuhússins, skiptu um glugga og hurðir og endurnýjuðu gólf, loftræstikerfi, pípulagnir, eldhús, verönd og grillaðstöðu. Kostnaður var um 18 milljónir króna.
Við þetta sama tækifæri var skrifað undir samning við Kópavogsbæ um uppbyggingu klúbbsins á Kópavogsbúinu, elsta húsi bæjarins, sem mun síðar hýsa aðstandendur bæði barna Rjóðursins sem og aðstandendur fólks á líknardeildar Landspítala, sem koma af landsbyggðinni. Áætlaður verkkostnaður er liðlega 50 milljónir króna og framlag Kópavogs verður 25 milljónir.
Rjóður er hjúkrunar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn. Þangað koma börn á aldrinum 0-18 ára sem þarfnast mikillar hjúkrunar og umönnunar. Rjóður er hluti af kvenna- og barnaþjónustu Landspítala og þar starfa hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfar, sjúkraliðar og félagsliðar í nánu samstarfi við Barnaspítala Hringsins.
Kópavogsbúið, sem var reist á árunum 1902-1904, er elsta húsið í Kópavogi og eitt fárra steinhlaðinna húsa utan Reykjavíkur sem enn standa. Húsið er hlaðið úr tilhöggnu grjóti og við byggingu þess notaði steinsmiðurinn Erlendur Zakaríasson steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann að byggingu Alþingishússins á árunum 1880-1881. Jörðin sem húsið stendur á sér langa sögu og var þar til að mynda þingstaður til ársins 1751. Kópavogsbúið var friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 12. október árið 2012 og nær friðunin til ytra byrðis hússins. Húsið hefur því, ásamt síðari tíma viðbyggingum, mikið varðveislugildi. Endurbætur á Kópavogsbúinu eru framhald af öðrum verkefni Lionsklúbbs Kópavogis á sama stað.
Ljósmynd: Henný Hraunfjörð deildarstjóri Rjóðurs og Högni Guðmundsson, formaður Lionsklúbbs Kópavogs, með hóp Lionsmanna í baksýn.